Það vita þeir sem til þekkja að fátt er í heiminum meira svæfandi en að sitja yfir misdjöfullegum fræðiritum um hitt og þetta fyrir próf. Þetta er ég að reka mig á þessa dagana og það með þungum dynk. Þegar dagurinn byrjar klukkan 5, vinnutími er 6 – 9, svo líkamsrækt og heim í lestur að því loknu reynist oft töluvert gengið á orkubirgðirnar um hádegisbil og tíminn milli 12 og 16 verður svo hálfgert helvíti þar sem kaffi gerir orðið mest lítið gagn enda þá almennt búið að þamba það síðan tæplega 6 um morguninn.
Þar kemur minn góði félagi Ægir í Vaxtarvörum sterkur inn með orkudrykkinn Smart sem reyndar kemur ekki í drykkjarformi heldur í staukum með hlunkstórum freyðitöflum. Þessar sprengjur innihalda amínósýrurnar taurin og L-karnitín auk ginsengs og koffeins. Upplagt að skella tveimur töflum í hálfan lítra af vatni og láta leysast upp. Bragðið er meira að segja fínt sem er nú ekki alltaf raunin með svona hressingarefni. Þetta má svo sötra í rólegheitum yfir fræðunum.
Smart nær sem sagt að skila mér gegnum versta hluta dagsins þegar kaffið dugir ekki til. Og verðið kemur á óvart. Ekki sofna slefandi ofan á bókastaflanum, vertu smart (af hverju er ég ekki að vinna á auglýsingastofu!?!).