Peru-cider – fíkn framtíðarinnar?

ciderGrevens peru-cider frá Hansa Borg-brugghúsunum í Bergen (og víðar) er nýjasta fíknin í lífi mínu. Þetta er glettilega góður svaladrykkur, 4,7 prósent og fæst í öllum búðum hér (4,7 er hámarksstyrkur áfengis úr öðrum verslunum en Vinmonopolet). Grevens fæst einnig með eplabragði og skógarberjabragði en einhvern veginn hefur perubragðið náð mestum tökum á mér þrátt fyrir að mér finnist pera ekkert sérstakur ávöxtur. Ég borða aldrei perur ótilneyddur. Hreinn unaður að skella í sig einum köldum nánast við öll tækifæri og þarna fæ ég loksins að upplifa smá bjórstemmningu (opna dósina með tilheyrandi smelli og hvin og svoleiðis) en eins og margir vita drekk ég ekki bjór sem mér finnst bölvaður viðbjóður. (MYND: Ég og peru-ciderinn. Halvtørr, fruktig og musserende eins og segir á umbúðunum. Gæti átt við um okkur báða.)

Vandamálið er að íslenska þetta fyrirbæri. Hvað heitir cider á íslensku? Ég hef ekki fundið aðrar þýðingar en síder og eplasafi en ekki er allur cider/síder úr eplum. Hugvitssamleg þýðing óskast hér með. Jæja, nú ætla ég að fá mér einn vel kaldan á gamla kantinum. Golden Brown með The Stranglers á fóninum (eða YouTube). Ætli þeir hafi samið lagið um Gordon Brown? …never a frown, with golden brown. Varla.

Núna er löng helgi, heilum klukkutíma lengri en aðrar helgar. Þetta helgast af því að vetrartími tók gildi í Evrópu í nótt. Það virkar þannig að klukkan þrjú í nótt varð klukkan tvö aftur. Ég var sofandi og veitti þessu ekki mikla athygli að þessu sinni. Þessi tímabreyting hefur þó einu sinni hitt býsna illa á eins og ég hef skrifað um hér áður en það var þegar ég var Nordplus-skiptinemi í Helsinki vorið 2003 og barinn lokaði í miðju öskrandi fylleríi af því að þá varð klukkan þrjú þegar hún varð tvö. Breytingin er því mun jákvæðari í október en í mars finnst mér. Núna er líka bara eins tíma munur á Noregi og Íslandi sem er alltaf þægilegra upp á öll símtöl að gera og svoleiðis.

Nýliðin vika var hin þokkalegasta og nú búum við okkur undir að nóvember skelli á okkur. Tíminn rýkur áfram og stutt í jólaheimsókn til Íslands. Hún hefst með jólahlaðborði á Argentínu 22. desember en engin Íslandsheimsókn er án heimsóknar þangað sem ævinlega hefst á tveimur tvöföldum gin & tónik við arininn. Dásamlegt. (MYND: Ætlaði alltaf að vera búinn að henda þessari inn, ljónstyggur svandjöfull með unga sína við Breiavatnet á Tall Ships Races-hátíðinni í ágúst. David Attenborough hefði ekki náð betri mynd.)
swan of death
Á aðfangadagsmorgun er hroðaleg för í Bónus á dagskrá. Ætlunin er að troðfylla stóra Samsonite-ferðatösku af lifrarpylsu, SS-pylsum, flatkökum, hangikjöti og öðru séríslensku ljúfmeti. Þar verður einnig hamborgarhryggur ásamt íslensku meðlæti sem verður á borðum hér á gamlárskvöld en fram undan eru fyrstu áramótin í Noregi sem vekja hvort tveggja kvíða og tilhlökkun. Þetta verður í fyrsta sinn sem ég horfi á Skaupið gegnum ruv.is, vonandi verður það í beinni þar. Öllu þessu mun fylgja mikil drykkja en 1. janúar hefst að vanda minn árlegi tveggja mánaða þurrkur með hörðu líkamsræktarátaki og heilbrigðu líferni. Ekki veitir af, ég er farinn að nálgast the big 40 allískyggilega! Bakspik, baugar og appelsínuhúð, B-in þrjú…eða þannig.

Við höfum tryggt okkur lánspláss í ísskáp hjá pabba undir Bónusfarminn frá aðfangadegi og þar til við fljúgum hingað út á ný annan í jólum. Ég verð að játa að það er freistandi að fara á KFC og troða tugum kjúklingabita í ferðatöskuna með öllu hinu góðmetinu en endanleg ákvörðun um þá aðgerð liggur ekki fyrir þegar þetta er ritað. Ég er að verða átfíkill ofan í peru-cider-fíknina, hvar lýkur þessu?

Athugasemdir

athugasemdir