Perlan við Herengracht

zuid zeelandÞað er ekki auðveldasti hlutur í heimi að standa frammi fyrir því að velja sér veitingastað til að heimsækja á gamlárskvöld þegar maður hefur varla borðað annað en íslenskættaðan hamborgarhrygg á gamlárskvöld síðan nánast á fósturstigi. Málið flækist enn meira þegar maður er staddur í Amsterdam þar sem maður er öllu kunnugri á knæpum og öldurhúsum en matsölustöðum þótt það sé hægt og rólega að breytast nú hin síðari ár.

Við svindluðum þess vegna lítillega og fengum Birgi Þorsteinsson (Rijssel auk þess komið aftan við núna) félaga okkar, búsettan í Amsterdam árum saman, til að beina okkur á réttar brautir. Þetta varð að vera svona dálítið fínt og ekki austurlenskt á gamlárskvöld þótt við hjónin hneigjumst mjög þangað í matar-æði okkar (átt er við mat frá Austurlöndum, ekki Austurlandi).

Fyrir valinu varð Zuid Zeeland, hlýlegur og mjög skemmtilegur staður í gamla miðbænum við Herengracht, eitt af þremur stærstu síkjum borgarinnar en gatan við hliðina ber sama nafn. Einhvern tímann stóð þarna franskur staður með sama nafni en núverandi eigandi, Gijsbert Bianchi, sem tók við staðnum 1998, breytti áherslunum og nú býðst þarna tiltölulega samevrópskur matseðill sem er þó allur á klassískum nótum. Sterk frönsk sveifla er þó í vínúrvalinu með áherslu á Burgundy-héraðið.zuid zeelandii

Á Zuid Zeeland liggur ekkert á, það er eitt af því fyrsta sem maður tekur eftir. Á kvöldin er fyrirkomulagið þannig að matargestir sitja gjarnan lengi og halda borðinu allt kvöldið. Þjónustan er eftir því og stjanað við fólk milli rétta eins og starfsfólkið hafi allan tímann í heiminum…sem það hefur líka. (MYND: Starfsfólkið gaf sér tíma til fyrirsætustarfa á síðasta klukkutíma ársins, Gijsbert Bianchi fyrir aftan til hægri, nettur Egill Helga í honum, og þjónninn okkar, Patrick, vinstra megin við hann.)

Við áttum borð klukkan 21 og létum bara fara vel um okkur. Fullbókað var á gamlárskvöld og að mér skilst biðlisti enda kom símtal frá staðnum í lok nóvember þar sem ég var inntur eftir því hvort við kæmum ekki örugglega. Það gerðum við auðvitað.

Fjögurra rétta matseðill var í boði um áramótin með hæfilegu svigrúmi í vali. Ég valdi mér strax íslenskan þorsk með baunasúpu og rúgbrauði (rye bread) í aðalrétt og þótti gaman að sjá hann á matseðlinum, Hollendingar eru greinilega strax búnir að gleyma Icesave enda ekki þeirra vani að hengja sig í leiðindi fortíðar.

Við fengum okkur bæði villisveppi með lauk- og ostablöndu í forrétt og að auki stóðst ég ekki mátið að demba í mig skál af jerúsalem-ætiþistlasúpu sem ég hefði örugglega ekki lagt í hefði ég séð nafnið á íslensku. Það var engin spurning með eftirréttinn, súkkulaðisprengja með mjúkum viskíkjarna og reyktum mjólkurís, bara titillinn er klikkun. Rósa er haldin þeirri áráttu að vilja yfirleitt bara forrétt og eftirrétt svo ég fékk því miður ekki tækifæri til að smakka bita af öðrum aðalrétti en þorskurinn var hreint lostæti.zuid zeelandiii

Ljóst var að nokkuð mæddi á starfsfólkinu þetta kvöld en frammistaða þess var í alla staði glæsileg og eigandinn Bianchi sveif á milli borða og lék á als oddi enda rættist gamall draumur hans með þessu veitingahúsi, að reka fallegan en látlausan stað í hjarta Amsterdam. Verst þótti okkur að þurfa að kveðja laust fyrir miðnætti til að ná að vera stödd í geðveikinni á Leidseplein þegar 2013 heilsaði en það er klárt að Bianchi og starfsfólk hans munum við heimsækja aftur í síðari heimsóknum. Verðið var býsna hóflegt miðað við gæði þjónustu, matar og víns, 200 evrur, og ég tek fram að við vorum ekkert feimin í prófun okkar á helstu víntegundum hússins.

Það er fullkomlega peninga og tíma virði að stoppa á Zuid Zeeland og snæða hádegis- eða kvöldverð þegar fólk á leið um Amsterdam. Heimasíðu staðarins með matseðli og fleiru má skoða hér.

Athugasemdir

athugasemdir