Ekki er ofsögum sagt að þjóðfélagið lamist hálfvegis um páskana, það er að minnsta kosti mikill rólegheitabragur yfir og fréttaflutningur snýst að miklu leyti um fyrirbæri á borð við eldgos sem enga rauða daga þekkja. Við vorum að koma ofan úr sumarbústað í Svínadalnum, hjá pabba og frú, þar sem hugtakið ofát öðlaðist nýja merkingu og nú innan skamms höldum við til tengdó í Garðinum þar sem enn gefur á bátinn. Öllu fylgir þessu nokkur drykkja og stefnir í að ég verði tækur á hvort tveggja, Vog og Hrafnistu, að loknum páskum.
Talandi um drykkju þá fór hér fram ágæt samkoma að kvöldi föstudags og var hér á heimili mínu statt á sama tíma eitt ógurlegasta þríeyki sem Garðabærinn hefur alið af sér: Lárus Freyr Jónsson, Guðmundur Njáll Guðmundsson og sjálfur Birgir Hákon Valdimarsson, einnig nefndur Skepnan, Biggi Meat Loaf (sem er eldra og helst bundið við níunda áratug síðustu aldar) og fleira. Tilefnið var, auk almennrar drykkju, að fagna hérvist bræðranna Ásgeirs og Elíasar Elíassona sem búa á Reyðarfirði og í Noregi og eru saman komnir á höfuðborgarsvæðinu yfir páskana.
Eðlilega var ýmsu kastað fram og rifjað upp héðan og þaðan, sumt frá æskuárum þríeykisins framangreinda og mínum í Garðabænum, sveitarfélagi sem uppfóstrað hefur marga bestu syni og dætur þjóðarinnar. Að öðrum ólöstuðum á Guðmundur Njáll Guðmundsson sérstakan heiður skilinn fyrir stífan lestur á atlisteinn.is og komst ég þá að því, án þess að leggjast í rannsóknir, að sagnfræðilegt heimildagildi síðunnar er gríðarlegt. Það var alveg sama hvað ég byrjaði að segja Guðmundi af sjálfum mér, hann vissi allt um það og þekkti líf mitt síðasta árið aftur á bak og áfram. Þá hafði hann kynnt sér ítarlega ýmis myndskeið, svo sem það sem sýnir okkur Ásgeir opna flösku af Captain Morgan á Reyðarfirði með viðhöfn um hvítasunnuna í fyrra. Brennandi metnað á borð við þennan lestur Guðmundar ber að lofa.
Reyndar kynntist ég Guðmundi Njáli ekki að ráði fyrr en við sátum saman í 4. bekk Menntaskólans í Reykjavík veturinn 1990 – 1991. Guðmundur lagði þar stund á ýmsar hollar menntir, lóðunum lyfti og glímu iðkaði og sund eins og segir í þekktum dægurlagatexta. Frægastur varð hann þó fyrir að iðka spjótkast af gríðarlegri innlifun, svo mikilli reyndar að hann ók um með spjótið í VW Golf-bifreið sinni nótt sem nýtan dag og var það ægilegur atgeir að sjá, rétt rúmaðist í bifreiðinni þjóni minnið mér. Guðmundur lýkur senn meistaranámi í lögfræði við HÍ og er ekki örgrannt um að hörð ástundun við lestur þessarar síðu blási honum þar eldmóði í brjóst.
Og gleðilega páska.