Ótti og óbeit í Las Vegas – páskaboðskapur atlisteinn.is

Þeir eru teljandi á fingrum annarrar handar sem skilja haus eða sporð á kvikmynd Terry Gilliam, Fear and Loathing in Las Vegas frá 1998. Ég játa sjálfur að eftir að hafa horft á Fear and Loathing ellefu sinnum náði ég ekki öllu í henni fyrr en eftir að hafa lesið bókina eftir Hunter S. Thompson heitinn, frægan bandarískan blaðamann sem er höfundur svokallaðrar Gonzo-blaðamennsku (e. Gonzo journalism), fyrirbæris sem samsvarar að miklu leyti þátttökuaðferð mannfræðinga.

Gonzo-blaðamennska gengur út á að dýfa sér inn í efnið sem á að fjalla um og vera þátttakandi. Blaðamaðurinn er sem sagt nálægur og ávarpar sig í fyrstu persónu. Hann er bara þarna á svæðinu og tekur þátt í því sem er að gerast. Hunter S. Thompson var sendur sem íþróttafréttamaður Sports Illustrated til að fylgjast með Mint 400-vélhjólakappakstrinum í Las Vegas ‘in that foul year of the lord 1971’ eins og hann orðar það.

Svo háttar til að hann neyðist til að taka með sér mafíulögfræðinginn dr. Gonzo eins og hann er kallaður í myndinni. Fyrirmyndin að Gonzo er enginn annar en Oscar Zeta Acosta, maður sem var búinn að koma sér upp á kant við mafíuna og hvarf sporlaust árið 1974. Johnny Depp á algjörlega leiksigur myndarinnar. Hann eyddi öllum sólarhringnum með Hunter Thompson í sex mánuði áður en tökur hófust og rauði Cadillacinn í myndinni er sami bíll og Thompson og Acosta fóru á til Las Vegas 1971.

Margir halda því fram að enginn geti skilið þessa mynd án þess að neyta skynaukandi lyfja. Ég get nánast tekið undir þetta en bæti við einum möguleika sem er að lesa bókina, hún skýrir mjög margt. Upphaflega birtist bókin sem nokkrar efnismiklar greinar í Rolling Stone Magazine árið 1971 en var síðar steypt saman í bók. Flest það sem sagt er frá í myndinni gerðist í raun og veru en leikstjórinn Terry Gilliam laumar inn alls konar þökkum og heiðrunum til hinna og þessara, svo sem Roger Pratt sem vann með honum að handritinu að The Fisher King, Monty Python and the Holy Grail og Twelve Monkeys. Snemma í myndinni er kallað í hátalarakerfið á hótelinu í Vegas ‘dr. Roger Pratt, please report to the front desk’.

Talandi um hótelið fékk þetta tiltekna hótel í Las Vegas lagt lögbann við því að myndin yrði tekin þar svo húsið sem táknar hótelið í myndinni er nákvæm leikmynd eftir sama hóteli. Hugsið ykkur vinnuna bara vegna stífni einhvers hóteleiganda í Las Vegas, Sódómu Bandaríkjanna.

Hafi einhver sem þetta les ekki séð eða lesið Ótta og óbeit í Las Vegas er sá hinn sami beðinn að auðga líf sitt með öðru hvoru nú þegar. Þetta verk er einfaldlega list sem lætur engan ósnortinn. Blessuð sé minning Hunters S. Thompson.

Athugasemdir

athugasemdir