Þetta var svakaleg verslunarmannahelgi þótt reyndar hafi bara verið um venjulega helgi að ræða hér í Stavanger. Þrátt fyrir að Norðmenn elski að vera í fríi hafa þeir ekki enn haft vit á því að koma sér upp verslunarmannahelgi frekar en Kentucky Fried Chicken. Þeir um það. The Tall Ships Races lauk á laugardaginn með gríðarlegri stemmningu í miðbænum. Það eina sem varpaði skugga á hátíðina var allt of gott veður, að mínu viti að minnsta kosti. Mitt íslenska blóð þolir takmarkaðan hita og síðustu daga hef ég hreint út sagt svitnað eins og hóra í kirkju, að meðtöldum deginum í dag. Af einhverjum ástæðum tíðkast loftkælingar ekki í Noregi frekar en verslunarmannahelgar eða KFC. Þeir um það.
The Neil Young Tribute Band hélt öllum miðbænum í heljargreipum þegar við mættum á svæðið með fullan bakpoka af Hammer vodka og Farris sódavatni (nýja sparnaðarátakið bannar bardrykkju þótt reyndar hafi verið veitt smá undanþága frá því síðar um kvöldið). Fljótlega hóf áhöfn Statsraad Lehmkuhl hins vegar upp svokallaðan shanty-söng sem er eins konar gagnvirkur söngur þar sem forsöngvari syngur upphafslínu og áhöfnin botnar. Ég finn aðeins eitt dæmi um að einhver hafi reynt að þýða þetta hugtak en það er vefútgáfa Sjómannadagsblaðsins og tilfæra þeir þýðinguna vinnusöngur sem er ekki lakari en hver önnur.
Þarna upphófst eins konar brekkusöngur Noregs (vantaði bara Johnsen og tilheyrandi Þykkvabæjarmetal) og grenjaði allur bærinn sig hásan í þessari skemmtilegu múgsefjun, sjá myndband mitt af atburðinum með aðstoð YouTube hér. (MYND: Stórvinur minn, Óttar Gunnarsson, hafði vit á því að flytja hingað til Stavanger í síðustu viku. Þetta er mikil blóðtaka fyrir lýðveldið en að sama skapi hvalreki norskra vínveitingahúsa. Þarna erum við á einu slíku. Staðurinn var þéttsetinn þegar við komum.)
Þetta var alveg glerfínn dagur og lauk með veglegri flugeldasýningu auk þess sem hrikalegt þungarokksband kom sér fyrir um borð í Statsraad Lehmkuhl undir miðnætti og lék fyrir dansi á meðan heljarmikill ljósleikur (sem íslenskufræðingur og málvöndunarmaður get ég bara ekki skrifað ljósashow!) skein sem Kraftbendils (e. Power Point)-sýning á rökkvaðri festingunni. Sennilega hefði ég fallið í ómegin af fegurð hefði ég ekki verið svo heppinn að vera með gnótt Hammer vodka til að hressa mig við. (MYND: Minn fyrsti elgborgari hefur ferð sína um meltingarfærin. Hann hefur ekki enn skilað sér til hafs þegar þetta er ritað.)
Að brennivíni ólöstuðu er grundvöllurinn að degi á borð við þennan laugardag næringarrík fæða og skorti mig hvergi ásmegin eftir að ég sporðrenndi elgborgara skömmu eftir að við komum niður í bæ. Þarna var sem sagt um að ræða hamborgara úr hreinu elgskjöti og þótt fyrsti bitinn bæri keim hins óþekkta gaf þessi einfalda máltíð að lokum ekkert eftir Heavy Special-tilboði American Style. Allir elgir sem bornir eru fram á norskum veitingastöðum hafa látist í umferðarslysum og aldrei mátt þola leiðinlega bið eftir dauðans óvissa tíma í ópersónulegum sláturhúsum auk þess sem þeir hafa ósvikið EFTA 111-upprunavottorð. atlisteinn.is, sem óhikað beitir sér gegn tilraunum og ómannúðlegri meðferð á dýrum og dýraklámi, getur því hiklaust mælt með norskum elgborgara. Ekki segja neinum frá því samt…