Óþolandi ósiður Morgunblaðsins

mogginn‘Kauptu tvo pakka af Merrild 103 eða Senseokaffi – þú gætir unnið glæsilega Philips Senseo kaffivél.’ Þetta tilboð er án efa góðra gjalda vert og birtist á límmiða sem festur var á forsíðu Morgunblaðsins föstudaginn 3. júlí. Þessi auglýsingaaðferð Morgunblaðsins er hins vegar eitt verst ígrundaða útspil í sögu fjölmiðla.

Það er engin leið að ná þessum bévítans miða af án þess að rífa stóran hluta forsíðunnar af í leiðinni. Í þessu tilfelli var þar um að ræða frétt um nýjasta spekinginn sem ætlað er að rannsaka bankahrunið, einhvern Norðmann sem Eva Joly hefur tröllatrú á. Ég andaðist svo sem ekkert af sorg við að missa af því að lesa einhverjar fjórar línur af fréttinni enda var hún bara vísun í ítarlega umfjöllun á innsíðum blaðsins (sem ég las ekki nema byrjunina á).

Hins vegar eru þessar álímdu auglýsingar sem gjarnan prýða forsíðu Morgunblaðsins hrein vitfirring. Hér áður fyrr tíðkaðist að sambærilegar auglýsingar væru hluti af síðum blaða og þá gert ráð fyrir því að lesendur, sem ekki væru haldnir Parkinsons-sjúkdómi, gætu klippt þær út og í framhaldinu tekið þátt í hvers kyns samkeppnum um að vinna kaffivélar, utanlandsferðir og annan varning sem nú myndi í flestum tilfellum teljast óttalega 2007. Límmiðarnir, sem Ólafur Stephensen telur að séu sniðugasta nýjung auglýsingabransans, eru hins vegar ekki til annars fallnir en að draga úr lestri á forsíðufréttum blaðsins þar sem hinn almenni neytandi, sem ekki býr yfir áratugareynslu í hannyrðum og laghendni, rífur forsíðuna í tætlur við að plokka auglýsingamiðann af áður en honum er hent í sorptunnu eins og flestum ruslpósti kreppuársins 2009.

atlisteinn.is skorar því með pistli þessum á Morgunblaðið, sem um nokkurt skeið var reyndar vinnustaður síðuritara, að láta án frekari tafa af þessari hvimleiðu límmiðaháttsemi og auglýsa vörur og þjónustu heldur á hefðbundinn hátt sem aðeins verður til þess að auka lestur forsíðufrétta blaðsins.

Athugasemdir

athugasemdir