Fréttir af hugmyndum um að fólk lesi sjálft af rafmagnsmælunum til þess að spara Orkuveitu Reykjavíkur fjölda starfsfólks eru athyglisverðar…og mjög góðar. Orkuveitan sjálf stendur þó greinilega mest á bremsunni eins og við var að búast og tekur upplýsingafulltrúi hennar skýrt fram í viðtali við RÚV að enn sé bara um hugmynd að ræða. Mjög í anda bruðlvélarinnar á Bæjarhálsinum.
Hérna í Noregi er þetta ekki flóknara en svo að ég fæ SMS-skilaboð frá Lyse skömmu fyrir mánaðamót þar sem ég er beðinn um að senda inn stöðuna á mælinum hið fyrsta. Það eina sem ég þarf að gera er að rölta að töflunni, lesa stöðuna og svara SMS-boðunum með tölunni eingöngu…án aukastafsins. Málið er dautt. Þeir sem vilja hafa þetta flókið skrá sig inn á sitt svæði á heimasíðu Lyse og slá töluna þar inn. Hér er það löngu liðin tíð að það komi einhver veðurbarin manneskja og banki hjá þér til að lesa af mælinum. Þetta gæti líka verið hver sem er!!!
Eins er stórkostlegt að lesa um fimmtán metra regluna og sorpdeilu Reykjavíkur. Ég drösla mínum tunnum óraveg upp á götu hvert sunnudagskvöld og allir hér. Svo rúllar maður þessu niður eftir aftur þegar maður kemur úr vinnunni. Þetta er nú ekki flókið en yfir þessu berjast bræður og að bönum verðast á Íslandi. Noregur er að mjög mörgu leyti eins og Ísland var árið 1985 en svo er sumt alveg einstefna í hina áttina.
Ég birti hérna að gamni póst sem ég sendi honum Ríkharði, tölvuspekúlantinum mínum hjá Miðneti, í kvöld. Er ég einn um að vera svona vanhæfur tölvunörd eða þekkja fleiri þetta?
Blessaður
Þetta er ömurlegt maður. Í fyrradag sótti ég mér Firefox 4.0-vafrann. Hann tók til starfa og ekkert með það, allt þannig séð eins og það átti að vera. Svo allt í einu í dag, tveimur dögum seinna, treður gamla ClixSense-tækjastikan sér inn í vafrann og yfirtekur allt. Nú er Firefox bara einn appelsínugulur hnappur uppi í vinstra horninu og ég þarf að byrja á að smella á hann til að opna rúllugardínu með öllum möguleikunum sem að jafnaði eiga að vera í tækjastikunni, það er að segja bókamerkjum, verkfærum og þessu öllu.
Hvað í hell á ég að gera í þessu??? Djöfuls [ritskoðað] maður…hérna væru hundrað upphrópunarmerki ef einn-hnappurinn virkaði hjá mér en hann datt út í rauðvínsflóði hinu fyrra. Þetta gerir mig brjálaðan, tölvurnar taka völdin.
Hvað á ég að gera?
Love,
Atli