Öl var alda

1.mars89Varla er stætt á öðru en að tileinka bjórleyfi Íslendinga frá 1. mars 1989 nokkrar línur á þeim merkisdegi þegar fjórðungur aldar er liðinn síðan annað en smyglaður bjór fékkst á Íslandi í fyrsta sinn í 74 ár (með fullri virðingu þó fyrir bjórlíki hvers framleiðandi náði að verða sér úti um dóm í Hæstarétti fyrir bruggun sem þó er allt annað (Hæstaréttardómar 1988:104)). (MYND: Morgunblaðið, 1. mars 1989. Væntanlega hefur hljómsveitin Dolby átt stórleik í Bolungarvík á laugardagskvöldinu.)

Þessi gullni mjöður var óneitanlega umhugsunarverður valkostur við landa sem fór mikinn á markaðnum fyrir sínar 1.500 krónur á lítra, verð sem hélst óbreytt í tvo áratugi hvað sem leið verðbólgu og vísitölusveiflum. Fyrsta „löglega“ bjórfylleríið okkar félaganna í Garðabænum beið þó í heilan mánuð af velsæmisástæðum, alveg þangað til ég hélt upp á 15 ára afmælið mitt í lok þessa sama marsmánaðar, en þá var ljóst orðið að hinn bæheimski Löwenbräu var orðið áberandi vörumerki í okkar hópi. Sagnfræðingum ber þó ekki saman um hverju þetta sætti, enda leitun að verri bjór, en leiða má líkum að því að valið hafi tengst frekar fáfenglegu bjórúrvali ÁTVR á þessum tíma og sennilega einkum og sér í lagi því að okkur þótti merkið á dollunum bara einfaldlega flott. Stæll yfir bláa ljóninu. (MYND: Fimmtán ára afmælið mitt sem ég hélt upp á 31. mars 1989 og var bjórnum fagnað í leiðinni. Hólmsteinn Gauti og Leifur Gauti Sigurðssynir (óskyldir þó) skála í bjór í sófanum á Sunnuflötinni.)Bjor31-3-89

Bjórdagurinn, 1. mars 1989, var tímapunktur sem íslenskir siðapostular úthrópuðu sem dómsdag. Frá og með þessum degi átti íslensk þjóð hreinlega að líða undir lok í svo skelfilegu fylleríi að sjálft syndaflóðið væri bara eins og kökubasar í samanburðinum. Æska landsins átti að koðna heiladauð út af á meðferðarstofnunum eftir að hafa eyðilagt sig gjörsamlega á bjór og íslensk drykkjumenning átti að sökkva niður til helvítis eins og kirkjan í Hruna í þjóðsögunni. Til að gera nú 25 ára langa sögu stutta varð þjóðin ekki vör við að spádómar þessir gengju eftir enda var íslensk drykkjumenning ekki til vorið 1989 frekar en hún er enn þann dag í dag. Fólk mætti til vinnu 2. mars, enda fimmtudagur þá, og enn hefur þjóðin ekki drukkið sig í gröfina í heild sinni þótt nú hafi tegundum fjölgað verulega í ríkinu.

Sjálfur hætti ég að drekka bjór árið 1994 eða þar um bil, finnst hann bæði bragðvondur og ópraktískt áfengi sem mest mætti vera, en þykir engu að síður gaman og sjálfsagt að minnast þessara tímamóta og þeirra daga þegar maður var barn og drakk Löwenbräu. Til hamingju með daginn, Íslendingar.

Athugasemdir

athugasemdir