Okkar tólf stig fara til…Hádegismóa!

moggiMorgunblaðið fjallaði um MA-ritgerðina mína á þriðjudaginn í síðustu viku, pabbi gamli var nógu árvökull til að kveikja á þessu og sendi mér greinina út en hún birtist ekki á mbl.is þar sem um fréttaskýringu var að ræða. Það er aðstoðarritstjórinn Karl Blöndal sem skrifar og ferst það vel úr hendi eins og annað. Ég er býsna sáttur, verkið varðar fjölmiðla og þeir eiga að sjá sóma sinn í að fjalla um niðurstöðuna (að mínu viti að minnsta kosti en auðvitað telst ég seint hlutlaus). Ég tilfæri hér meginmál greinarinnar en auk þess voru birtar nokkrar klausur úr athugasemdum þátttakenda í könnuninni en þær má í heild sinni lesa í ritgerðinni sjálfri sem ég birti hér á síðunni mánudaginn 31. maí undir fyrirsögninni ‘Án dóms og laga – loksins’. Sú skráveifa er gerð hér að gæsalappir eru einfaldar og opnast og lokast uppi en forritið sem ég skrifa texta fyrir atlisteinn.is í býður ekki upp á íslenskar gæsalappir. Þá er sá öfugsnúningur á textanum að hann er hér allur skáletraður utan það sem er skáletrað í Mogganum, það er hér beinritað. Millifyrirsögn er skáletruð og undirstrikuð.

Þeim dómi verður ekki aftur snúið
‘In dubio pro reo eða saklaus uns sekt er sönnuð er einn af hornsteinum réttarríkisins og því ætti ekki að gefa fjölmiðlum færi á að nafngreina meinta sakamenn því um leið eru þeir dæmdir af almenningi og þeim dómi verður ekki aftur snúið.’ Þannig farast orð þátttakanda í könnun, sem Atli Steinn Guðmundsson gerði fyrir MA-ritgerð sína í blaða- og fréttamennsku við félags- og mannvísindadeild Háskóla Íslands um nafnbirtingar grunaðra afbrotamanna í fjölmiðlum.

Atli Steinn lagði spurningalista fyrir 50 einstaklinga, sem eiga það allir sameiginlegt að nöfn þeirra voru birt í fjölmiðlum áður en dómur féll í máli þeirra eða ákæra var gefin út. 44% svarenda sögðu að sér hefði verið brugðið við nafnbirtinguna, 22% sögðust hafa reiðst, 20% stóð á sama, 14% litu á birtinguna sem eðlilegan þátt í upplýsingahlutverki fjölmiðla. Enginn kvaðst hins vegar hafa tekið nafnbirtingunni ‘sem þarfri áminningu’, en það var fimmti möguleikinn, sem gefinn var upp í könnuninni. 60% kváðust hafa fundið fyrir neikvæðara viðhorfi gegn sér í samfélaginu eftir birtinguna, 26% skynjuðu enga sérstaka breytingu og 14% fundu fyrir jákvæðara viðhorfi.

DV sker sig nokkuð úr
Atli Steinn skoðaði vinnubrögð íslenskra og erlendra fjölmiðla í sambandi við nafnbirtingar. Í þeim efnum sker DV sig nokkuð úr. Þar er almenna reglan ‘sú að birta nöfn fólks þegar fréttir eru sagðar,’ er haft eftir Reyni Traustasyni, ritstjóra blaðsins. ‘Þannig að það er undantekning frá reglunni að gera það ekki.’

Fram kemur að á Fréttablaðinu sé almenna reglan að birta ekki nöfn sæti persónur kæru og þumalputtaregla við ákvörðun um birtingu hvort líkleg refsing við brotinu sé tveggja ára fangelsi eða meira.

Á Morgunblaðinu er líka stuðst við tveggja ára reglu, en skilyrði nafnbirtingar að dómur hafi fallið.

Atli Steinn fékk þau svör frá Ríkisútvarpinu að í skriflegum reglum væri boðið að viðhafa sérstaka varúð við nafn- og myndbirtingar. Oft mætti miða við að nafnbirting teldist réttlætanleg að undangengnum þyngri en tveggja ára fangelsisdómi.

Hjá Stöð 2 og Vísi fékk Atli Steinn þær upplýsingar að meginstefnan væri að virða þá grundvallarreglu að allir teldust saklausir uns sekt sannaðist og ekki skyldi alla jafna nafngreina sakborning fyrr en honum hefði verið birt ákæra.

Atli Steinn sendi að auki fjölmiðlum í átta löndum spurningar um reglur þeirra um nafnbirtingar. Eins og gefur að skilja eru reglurnar ólíkar. Lengst virðist gengið í Danmörku að vernda friðhelgi hinna grunuðu. Hann fékk þau svör frá blaðinu Politiken að fjögurra ára fangelsi væri lágmarksskilyrði fyrir nafnbirtingu nema opinberar persónur ættu í hlut. Meginregla norska ríkisútvarpsins og blaðsins Aftenposten er að birta ekki nöfn grunaðra og aftur er gerð undantekning þegar um opinberar persónur er að ræða.

Í breskum fjölmiðlum eru nöfn grunaðra manna almennt birt, en þó bannað með lögum að birta nöfn þegar börn eiga í hlut. Á Írlandi er almennt ekki greint frá nöfnum grunaðra brotamanna. Írska ríkisútvarpið sagði að á undanförnum tíu árum hefðu aðeins verið gerðar tvær undantekningar frá þessari reglu og hefðu þær varðað einstaklinga sem lögregla tók til yfirheyrslu vegna bankahrunsins á Írlandi.

[Að auki birtust þrjár beinar tilvitnanir í þátttakendur en ég bendi á allar tilvitnanir í ritgerðinni sjálfri.]

Athugasemdir

athugasemdir