Ég skal alveg játa það að ég hélt klárlega að brýnið á Bessastöðum myndi brotna í þetta skiptið. En…hvað gerist? Gallharður sýnir karlinn Jóhönnu hvar Davíð keypti ölið (Davíð Oddsson að sjálfsögðu). Ég er nú eiginlega búinn að Icesave-a yfir mig á opinberum vettvangi síðustu tvö árin en þetta eru bestu fréttir ársins sem berast hingað út í dag. Það er auðvitað ljótt af mér en ég fyllist hálfgerðri Þórðargleði í garð Jóhönnu. Hún veit að þetta verður skítfellt í þjóðaratkvæði og þess vegna vill hún ekki þjóðaratkvæði. Þar með get ég ekki séð að hún sé fylgjandi því að lýðræði ríki á íslandi. Er það ekki bara Rökfræði-101? Forsætisráðherra vill valta yfir þjóðina með gerræði og fjötra hana í skuldum einkafyrirtækis. Af hverju verður mér hugsað til Túrkmenistan eða Kína? Þetta er stórmerkileg afstaða forsætisráðherra úr félagshyggjuflokki. (MYND: Lifi andspyrnuhreyfingin á Álftanesi. Það er klárt að náist einhvern tímann að samþykkja lög um Icesave verða þau ekki nefnd Ólafslögin eins og hin frægu verðtryggingarlög Ólafs Jóhannessonar frá 1979.)
Manni rennur blóðið til skyldunnar að taka þátt í þjóðaratkvæðagreiðslunni. Væntanlega verður hægt að banka upp á hjá ræðismanni Íslands sem situr hérna niðri í Sandnes og segja feitt nei. Nú ætla ég að setja fram spádóm um úrslitin. Stjórnmálafræðigreiningardeild atlisteinn.is spáir því að nýi Icesave-samningurinn verði felldur með 73 prósentum atkvæða í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þessi munur síðan síðast mun eingöngu koma til vegna þess að nú nenna einhverjir ekki að hafa Icesave hangandi yfir sér lengur og þurfa að hlusta á endalausa umfjöllun um þriðja samninginn. Þeir munu því kjósa já til að mynda ekki eins konar Icesave-Groundhog Day í íslenskum stjórnmálum. Það eru hvort tveggja mistök og aðgerð sem kemur allt of seint.
Að verri málum. Ég þarf sennilega að kyngja því að ég verð ekki 105 kíló 1. maí næstkomandi nema hreinlega með því að éta blý. Nýjasta áfallið kom í kvöld þegar vigtin sýndi 96,7 kg og það eftir máltíð en venjulega vigta ég mig strax eftir æfingu og áður en ég borða nokkuð. Ég er sem sagt búinn að missa þrjú kíló síðan í janúar þrátt fyrir stífar lyftingar og mokstur fæðubótarefna. Þarna spila nýhafnar taekwondo-æfingar líklega inn í en ættu þó ekki að skýra svo mikið þyngdartap. Þetta táknar að Kári bróðir vinnur sennilega 105 kílóa keppnina en samkvæmt tölvupósti frá Gullu frænku er hann búinn að létta sig um 15 kíló síðan í janúar. Er hann að hamast með ostaskerann á sér?!? Reyndar hef ég ekki fengið þessa tölu staðfesta frá honum en bíð átekta. Það kallar á brennivín ef satt reynist.
Ofan á allt annað er ég að fá bakhárakast, sá það í speglinum eftir æfingu í gær. Bakhár eru að verða vestrænt heilbrigðisvandamál á mér og plágan ágerist. Þarf ég að fara að baða mig í háreyðingarkremi? Rósa ætlar að vaxa ófögnuðinn af mér annað kvöld. Ég er að hugsa um að birta myndir af þeirri aðgerð hér á síðunni og má fullyrða að þær verði ekki fyrir hjartveika. Spurning hvort okkar verði í aðstöðu til að halda á myndavélinni.