Ofsóknir fjölmiðla

vgKrakkaskratti nokkur hefur þann leiða ávana að fara um okkar hverfi á mjög óskristilegum tíma á sunnudagsmorgnum, hringja á dyrabjöllum saklauss fólks og bjóða því til sölu dagblaðið Verdens Gang, VG. Hefur kveðið svo rammt að útburði þessum að klukkan glymur jafnvel rétt upp úr klukkan níu téða morgna. Nú ganga Norðmenn mjög til messu á sunnudagsmorgnum og eru jafnan komnir að predikunarstólnum klukkan tíu, nötrandi af guðhræðslu. Þar með má gera því skóna að þeir séu vaknaðir klukkan níu og reiðubúnir að kaupa eintak af VG. Hið sama gildir ekki um drykkfellda Íslendinga sem þekkja fáar nautnir æðri þeirri að sofa út um helgar og telst allt fyrir hádegi nótt þá daga.

Til að kveða niður þessa ósvinnu gerðum við okkur plagg það sem sjá má á meðfylgjandi mynd. Það var þó ekki fyrsta tilraun til að semja um helgidagafrið því handskrifaður miði var hengdur á útidyrahurðina í september og beðist griða. Þá fékkst friður þann eina dag en martröðin hélt svo áfram sunnudaginn eftir og dyrabjallan glumdi fyrir allar aldir. Því var ástæða til að skrifa ‘en gang til’ á nýja plaggið og skilaboðin dugðu til að við fengjum að sofa í morgun. Til öryggis verður blaðið fest á hurðina næsta sunnudag líka en þaðan í frá vonum við að skilaboðin hafi ratað gegnum þykka höfuðkúpu útburðarins. Lesendum verður leyft að fylgjast með þessu.

Á morgun verð ég í fyrsta sinn einn á báti í nýja starfinu og mun stjórna öllu mínu starfsfólki hjálparlaust. Verðandi forveri minn í starfi, Else Marie Brattaas, sem annast þjálfun mína þar til hún fer á eftirlaun 17. desember, er í fríi og treystir mér fyrir sjoppunni. Ef allt gengur eins og smurt verður þetta allt í lagi. Málið versnar ef veikindi koma upp. Þá þarf ég að vera klár í að hrókera mannskapnum til eftir því hver kann á hvaða deildir og færa þetta allt inn í viðeigandi tölvukerfi sem ég hef takmarkaða kunnáttu til enn sem komið er. Ég nýt þó dyggrar aðstoðar hinna seksjonsleder-ana sem kunna þetta allt saman og ekki skemmir að aðstoðarmanneskja mín hefur unnið á spítalanum síðan 1981 og kann að bregðast við flestum aðstæðum. Sú var einmitt yfirmaður minn hluta síðasta sumars. Það er þó nettur glímuskjálfti í mér, ég neita því ekkert.

Stavanger Aftenblad er búið að fletta ofan af frábæru hneyksli. Hópur fólks sem heldur úti ráðgjafarþjónustu fyrir fólk sem á vandræðabörn, og kemur meðal annars fram sem málamiðlunaraðili milli foreldranna og barnaverndaryfirvalda, tengist umfangsmiklum rekstri kynlífsnæturklúbba í Ósló. Þetta komst upp þegar blaðamenn Aftenbladet áttuðu sig á að sama skrifstofan var skráð fyrir netlénum ráðgjafarþjónustunnar annars vegar og swingers.no hins vegar en klúbbarnir eru starfræktir af eiganda þeirrar síðu. Einn barnaverndarráðgjafanna ræðir þetta í ítarlegu viðtali við blaðið á föstudag og segir ekkert óeðlilegt við að menn séu með mörg járn í eldinum. Fólk á vegum hans hefur verið bendlað við líflátshótanir í garð starfsfólks barnaverndarnefnda, þar á meðal formanns nefndarinnar hér í Stavanger en póstkassinn hans var fylltur af sláturúrgangi og dauð rotta skilin eftir á dyraþrepinu. Þá hefur einn ráðgjafanna verið handtekinn og yfirheyrður eftir að hann aðstoðaði 13 ára stúlku við að strjúka frá heimili sínu í Rennesøy hérna rétt hjá og faldi hana á heimili sínu. Talandi um að taka vinnuna með sér heim.

Athugasemdir

athugasemdir