Frá og með nýliðnum föstudegi erum við hjónin komin með offshore sertifikat eftir fjóra stífa daga hjá Falck Nutec. Við höfum sem sagt leyfi hérlendra stjórnvalda til að ferðast með þyrlu út á olíuborpalla á norsku landgrunni og dvelja þar við störf.
Það er svo sem ekki nema hálfur sigur þótt óneitanlega hafi tilfinningin verið góð að klára þennan áfanga. Enn þá er töluverður spölur eftir í að við förum að nálgast að líta freistandi út í augum hins dæmigerða leitar-/vinnslufyrirtækis. Eitt þrepið á þeirri leið er að ljúka brønnteknikk-námskeiðinu en hafi mér fundist hornafræðihelgin um daginn skelfing var sú helgi sem nú var að ljúka beinlínis vítislogar. Hún var sem sagt þannig í stuttu máli að hópurinn sat frá föstudegi til sunnudags og reiknaði ýmsa fleti á þrýstingi í olíu-/gasbrunni við óvænt innstreymi (e. kick) á vinnsludýpi og viðbrögð við fyrirbærinu.
Mér líst ekkert á prófin fram undan með alla þessa stærðfræði í farteskinu og slæmu fréttirnar eru að svo bætist efnafræði í hópinn næstu skólahelgi sem er helgin eftir páska. Góðu fréttirnar eru að sú helgi er síðasta helgi námsins að frátalinni upprifjunar- og prófundirbúningshelgi hálfum mánuði seinna. Svo fer nú að sjá fyrir endann á þessu en prófin eru í maí, það síðasta 15.
Áður en þau skella á munum við leggja á okkur eitt hliðarnámskeið í viðbót sem er svokallaður riggerkurs hjá Rogaland Kranskole og tekur heila viku (sem einnig verður tekin af sumarfríinu okkar!). Brúarkraninn er svo í júní og svo er nú hægt að fara að huga að því að sleikja sólina og drekka brennivín á Íslandi og í Portúgal. Klárlega mun mér ekki leiðast það eftir þriggja mánaða þurrk og allt þetta námskeiðabrölt!!
Hér skín sól í heiði og vorið er farið að minna verulega á sig. Á morgun hefst mín mánaðarlega beredskap-vika í vinnunni sem þýðir botnlausa yfirvinnu frá mánudegi til laugardags, jafnvel sunnudags. Það hugnast mér töluvert betur en að sitja á löngum fyrirlestrum um olíuvísindi en svona er lífið bara. Maður þarf að hafa viss áhrif á umhverfi sitt til að laða til sín einhver gæði, fríðindi eða annað sem maður telur eftirsóknarvert. (MYND: Kranaskipið Uglen liggur við bryggju hér í Sandnes. Myndin skilar því illa en þetta er ógurlegt flikki og sennilega ekki undir 40 metrum upp í topp kranabómunnar. Svartfoss Eimskipafélagsins var við hliðina á í gær.)
Á sunnudaginn eftir viku berst okkar ársfjórðungslega sending frá Islandsfisk hingað á svæðið. Í þetta sinn er þar um rammíslenskt lambalæri að ræða, Egils appelsín, SS-pylsur, bjúgu frá Norðlenska, flatkökur, íslenskt sælgæti og að sjálfsögðu páskaegg frá Góu (vantar í raun bara nautaböku frá Gæðakokkum í Borgarnesi). Hér á heimilinu verða því mikil veisluhöld um páskana og þá byrja ég auk þess að drekka brennivín aftur eftir brakandi þriggja mánaða þurrk og mikið rosalega finnst mér ég eiga það skilið eftir það sjálfskipaða puð sem hefur einkennt þetta ár fram að þessu, endalaus námskeið og andskotans stærðfræði!!! Eins og venjulega verður myndbandið Fyrsti sopinn á sínum stað á YouTube og hér á atlisteinn.is – þar sem drykkja snýst um fólk.