Örninn er sestur!

brkaup-aalJæja, óumflýjanlegi dagurinn er runninn upp, síðasti dagur sumarfrísins. Við lentum á Sola-flugvelli í Stavanger klukkan 13:40 að staðartíma í dag. Höggið var næstum svipað og þegar við komum úr fríinu í Amsterdam í júlí í fyrra ef einhver man eftir því. Á morgun tekur vinnumarkaðurinn við, kaffibrúnn dagur bíður ferskur eftir oss, eins og Bubbi söng í Ballöðunni um gula flamingóinn. (MYND: Eftir athöfnina./Björgvin Hilmarsson)

Ýmislegt er hægt að afreka í tveggja vikna sumarfríi. Eitt af því var að halda rúmlega 200 manna brúðkaupsveislu svo hvergi bar skugga á. Sennilega var meiri hluti lesenda minna í veislunni svo menn þekkja framkvæmdina á þessu svona nokkurn veginn. Auðvitað birtast fleiri myndir og myndbönd í fyllingu tímans, þar á meðal af ógleymanlegri frammistöðu Bubba Morthens sem gjörsamlega átti salinn meðan hann var á sviðinu. (MYND: Þetta er augnablikið, Bubbi að spila Svartan afgan fyrir mig persónulega./Sigurveig Alexandersdóttir)bubbi

Eins og ég sagði í ræðunni eiga margir meiri heiður en ég af framkvæmdinni á þessu öllu, Kári bróðir tæklaði matinn eins og að drekka vatn, Árni Björnsson á Spot og Rósa Thorsteinsson, kærasta hans, frábært starfsfólk þeirra sem stóð vaktina, Heiðar Ingi Svansson, veislustjóri og hreinræktaður snillingur, Ásgeir Elíasson og Björn Halldórsson svaramenn (sem þó svöruðu engu), Borghildur Hauksdóttir, Guðmundur Elíasson faðir minn, Björgvin Hilmarsson, líffræðingur, jöklaleiðsögumaður og snilldarljósmyndari, og ekki síst séra Bjarni Karlsson sem hreif vel skipaða Hallgrímskirkju með sér í eldræðu og glimrandi athöfn. Ekki skemmdi frammistaða Björns Steinars Sólbergssonar á orgelinu þar. (MYND: Mætingin á Spot, þetta var ógleymanlegt. Eigum við að fara eitthvað nánar út í veðrið 30. júní 2012!?)brkaupii

Ég tek þetta frábæra og allt of stutta sumarfrí fyrir í máli og myndum í næstu pistlum. Það var vel tilfinningaleg stund að fara beint út af Ölstofunni í nótt og upp í leigubíl út á völl (með stuttu stoppi í Garðabænum). Sérstakar kveðjur til piltsins sem ég hitti á Bæjarins bestu rétt fyrir brottför og vissi allt um mig og eiginkonuna nýbökuðu eftir dyggan lestur hér á síðunni.

Ég þakka öllum sem ég náði að hitta og drekka brennivín með í stuttri heimsókn kærlega fyrir mig. Stuðningur ykkar er okkar vopn! (Stolið frá Krabbameinsfélaginu.)

Athugasemdir

athugasemdir