Minn eini pólski vinur, Robert Sumera, gerði strandhögg hér í gær. Við kynntumst á haustvertíð í sláturhúsi Nortura í Stavanger árið 2010. Robert var þá nánast ómæltur á enska tungu en var fróðleiksþorsti piltsins þó til staðar öngvu að síður. Sjálfur hafði ég alltaf verið forvitinn um slavnesk tungumál síðan ég lærði króatísku einn vetur árið 2005 áður en ég hélt í sumarfrí til Porec í Króatíu.
Við Robert stóðum hlið við hlið í framleiðslulínu slátursalarins tólf tíma á dag í sex vikur og höfðum frekar einföld verkefni. Ég klippti efsta hryggjarliðinn af 2.000 nýslátruðum lömbum á dag og hann stimplaði skrokkana með áletruninni EFTA 0111 kjøtt, þrjá stimpla á hvora lið sem sýndu að um evrópska upprunavöru væri að ræða. Með okkur tókst þá samningur um gagnvirkt ensku- og pólskunám og fóru samskipti okkar í fyrstu fram á þýsku sem hann talaði þokkalega eftir að hafa starfað á pólsku hóteli nálægt þýsku landamærunum áður en þau hjónin flúðu til Noregs undan lágum launum og almennt hörmulegum kjörum, rétt eins og við hjónin. (MYND: Haustið skartar sínu fegursta hérna í hverfinu hjá okkur og sól og blíða leggja sín lóð á vogarskálarnar við að gera gróðurinn að veislu fyrir augað. Aldrei nenni ég samt út að labba, voðalega er maður orðinn latur.)
Robert er býsna athyglisverður náungi. Hann er menntaður íþróttakennari og nuddari en hefur auk þess lagt á sig nám í hótelrekstri. Við hittumst um það bil einu sinni á ári og lítum í eitt eða tvö glös á meðan hann tekur út pólskuna mína og kennir mér nýja hluti sem ég hef að jafnaði gert pöntunarlista yfir. Nú gleðst ég yfir latínunáminu í 4. bekk í MR margt fyrir löngu, þeim mikla málfræðifjársjóði. Í pólsku hafa nafnorð sex föll og sagnir eru viðskeyttar þannig að sleppa má persónufornafninu en ending sagnarinnar kemur í staðinn. Robert varð mjög stoltur af mér þegar ég í október 2010 gat sagt við hann á lýtalausri pólsku “Ég veit að þú ert hommi”, ja wiem, zé ti jestes pedau. Þann dag féllumst við grátandi í faðmlag.
Stór draumur þeirra hjóna rættist nú í ár þegar þau gátu farið með launin sín frá Noregi og staðgreitt 75 fermetra íbúð í sínum gamla heimabæ í Póllandi. Þau eru misjöfn kjörin þótt vegalengdin sé ekki ýkjamikil. Þau ætla sér að búa í Póllandi en vilja samt vera nokkur ár í viðbót á norskum launum. Mikið skil ég þau.