Gamla Hard Rock-stemmningin gengur nú í endurnýjun lífdaganna í Hamborgarafabrikku Simma og Jóa í Höfðaborg við Borgartún. Eins og mér finnst þessi glerturn nú óspennandi, tákngervingur stolinna uppgangstíma í þjóðfélagi sem sá of seint að góðærið var gúmmítékki, verður að játast að þeir félagar hafa spilað vel úr húsnæðinu og útkoman er stílhreinn veitingastaður þar sem engu er ofaukið. Þetta er í raun eins og Hard Rock mínus allt draslið sem hékk uppi um alla veggi þar. (MYND: Þessi hamborgari tengist efni pistilsins ekki, myndin var eingöngu valin af því að hún er af hamborgara. Allar tengingar við aðra hamborgara, lifandi eða dauða, eru tilviljanakenndar og úr lausu lofti gripnar.)
Reksturinn hefur heldur betur farið af stað með látum. Við duttum þarna inn um fimmleytið á laugardaginn og þá var klukkutíma bið eftir borði. Hefðum við komið hálftíma seinna hefðum við sennilega ekki einu sinni reynt. Góður bar gerir klukkutíma bið eftir borði hins vegar að hreinu ævintýri og ekki leið á löngu þar til Bombay-gin var uppselt í húsinu. Við skiptum þá yfir í Beefeater svo þetta slapp til.
Þarna var á annan tug starfsmanna heldur betur að vinna fyrir kaupinu sínu og samt ljóst að engu mátti muna til að í óefni væri komið. Kokkaliðið, sem er sýnilegt frá veitingasalnum, sveittist blóðinu við að forðast vanskil á endalausum haugum af hamborgurum og meðlæti sem streymdi út í salinn með leifturhraða. Mikil stemmning og fjör og afmælisbörn fengu óskalög og fagnaðarlæti frá gestum, önnur minning frá Hard Rock. Þá er Fabrikkan væntanlega eini veitingastaðurinn í heiminum sem spilar eingöngu íslenska tónlist.
Einhverjir eru væntanlega enn að bíða eftir að örtröðin minnki á Fabrikkunni svo þeir komist að til að prófa. Þetta var önnur tilraun okkar, við gáfumst upp fyrir viku. Biðin er hins vegar vel þess virði, matseðillinn er fínn hjá strákunum, einfaldur og nöfn réttanna oft vísanir í eitthvað séríslenskt, Ungfrú Reykjavík, Morthens og svo framvegis. Maður tekur sér alveg þrjár heimsóknir í að mynda sér endanlegt álit á matnum en tígrisrækjuforrétturinn og sjálfur Morthens í hamborgaraformi í aðalrétt gáfu ekki millimetra eftir. Mér finnst ég alltaf taka smá áhættu þegar rækjur eru annars vegar á veitingahúsum eftir að ég komst við illan leik heim á dolluna í kjölfar heimsóknar á Ruby Tuesday árið 2001. Allt er þó eðlilegt enn þegar þetta er skrifað aðfaranótt mánudags.
Hamborgarafabrikkan fær sem sagt fullt hús hjá mér án þess að ég ætli að fara að leggja það í vana minn að halda úti einhverri veitingahúsarýni hérna. Þetta er flottur staður, laus við allt prjál og óþarfa og ef stemmningin á laugardaginn er komin til að vera hafa Simmi og Jói heldur betur hitt naglann á höfuðið með hugmyndinni.
Menn hafa verið að væla í útvarpi og víðar um að drengirnir hafi misnotað aðgengi sitt að fjölmiðlum til að auglýsa staðinn upp með heilu sjónvarpsþáttunum. Hvort tveggja er, að ég kem ekki auga á neitt ákveðið fórnarlamb þess gjörnings og aukinheldur hefur markaðssetningin þá að minnsta kosti tekist! Tuðþörfin er okkur Íslendingum í blóð borin.