Ný lifur er ekki eitthvað sem þú kaupir í Bónus

Það þykir furðulegt að Jobs hafi gengist undir aðgerð, þar sem ný lifur var grædd í hann, á sjúkrahúsi í Tennessee, í órafjarlægð frá heimili hans í Kaliforníu. Lifrar eru takmörkuð auðlind, svo takmörkuð að aðeins þriðjungur þeirra sem eru á biðlista eftir lifur í Bandaríkjunum fær að lokum þennan lífsnauðsynlega varahlut.

Yfir 16.000 Bandaríkjamenn eru nú á þessum lista og eru sumir verr staddir en aðrir. En er hægt að stytta sér leið þegar eignir manns eru metnar á 5,7 milljarða dollara eins og í tilfelli Apple-forstjórans? Sumir vilja meina það og benda á að ýmsir frægir einstaklingar hafi dúkkað upp með nýja lifur á mettíma á meðan Jón í næsta húsi bíður árum saman og deyr svo ef til vill áður en að honum kemur.

Málið er þó flóknara. Í Bandaríkjunum getur enginn keypt sér líffæri, löglega það er að segja. Að fá lifrarígræðslu er eins og að komast inn í ákveðinn háskóla, skrifar blaðamaður CNN. Maður sækir um, fer á biðlista og svo veltur framhaldið á persónulegum eiginleikum þínum, í lifrartilfellinu er það hversu veikur viðkomandi er og hvort líffæragjafinn passar líffræðilega við þegann.

Ótal þættir þurfa því að koma heim og saman til að grædd sé ný lifur í einstakling á einu þeirra 127 sjúkrahúsa í Bandaríkjunum sem sinna lifrarígræðslum. Eru peningar einn þeirra þátta? Spyrðu Steve Jobs.

Athugasemdir

athugasemdir