Nú er hún Snorrabúð stekkur…

grillÉg verð að játa að ég hélt að þessi frétt Vísis í dag væri síðbúið aprílgabb. Er þetta ein af hugmyndum rauðhærða riddarans Jóns Gnarr sem ég hef ítrekað lýst yfir stuðningi við? Falla nú öll vötn til Dýrafjarðar. Það er hárrétt sem viðmælandi Vísis segir, þetta er hrein og klár heimska og ekkert annað. Sviptu mann bílastæði sínu og þú rænir hann framtíð og lífshamingju. Að velja sjálfa Hverfisgötuna undir hryðjuverk á borð við þetta er mannvonska sem jafnvel al-Qaeda-samtökin myndu tárfella yfir. (MYND: Nýja grillið. Stórskemmtilegt að skipta úr gasi í kol og gera þetta á gamla mátann aftur.)

Við keyptum okkur kúlulaga kolagrill á þrífæti í dag. Það kostaði 279 krónur norskar sem er innan við rauðvínsbelja. Hún var svo auðvitað keypt í sömu ferð. Svínahnakka var svo skellt á grindina í tæplega 30 stiga hita úti í garði og frí tekið frá bókaröðun. Maður getur ekki gert allt. Dásamlegt að grilla á kolum aftur. Slíkt grill var á mínu æskuheimili og pabbi skaraði þar glóðum elds af natni og kunnáttusemi…í minningunni alla vega.

Hafnfirska morðmálið er mikill harmleikur. Ég hef rennt yfir helstu fréttir af því á Vísi í dag. Ég sé að Guðrún Sesselja, frænka mín og verjandi eins hinna grunuðu, fordæmir harðlega nafn- og myndbirtingar fjölmiðla í garð skjólstæðings síns og kallar vinnubrögðin forkastanleg. Þarna sprettur MA-ritgerðin mín síðan í vor ljóslega fram þar sem ég skrifaði einmitt um nafnbirtingar grunaðra afbrotamanna í fjölmiðlum og leitaði skoðunar 50 íslenskra afbrotamanna og grunaðra en sýknaðra afbrotamanna á málinu. Auk þess leitaði ég eftir vinnureglum íslenskra fjölmiðla og fjölmiðla átta erlendra ríkja þegar kemur að nafnbirtingum. Nú er þetta málefni enn einu sinni orðið að opinberu bitbeini í íslenskri umræðu. Fyrir þá sem eru nógu veikir andlega má nálgast ritgerðina hér.

Athugasemdir

athugasemdir