Norska – nýr heimur

norskiNorskunám er hafið af krafti hjá tungumálaskóla Mímis, hófst reyndar í gær. Reyndar má segja að við höfum verið orðin töluvert sjóuð í málinu fyrir eftir að hafa fylgst grannt með sjónvarpsþættinum Himmelblå sem Ríkissjónvarpið sýnir á sunnudagskvöldum. Argasta bull þannig séð en má þó hafa gaman af og sérstaklega nokkurt gagn því þarna er greinilega talað tiltölulega gott og slettulaust mál. Margra ára dönskunám í grunn- og framhaldsskóla er líka ágæt byrjun, norskan snýst mest um að breyta framburðinum og tileinka sér rithátt sem er nokkuð frábrugðinn dönsku en engan veginn óyfirstíganlegur.

Mímir býður framhaldsnámskeið að þessu loknu og tekur hvort námskeið sjö vikur. Því seinna lýkur 27. apríl en við eigum flugmiða til Stavanger 11. maí svo þetta smellpassar. Við mætum á staðinn með reiprennandi munnræpu…að minnsta kosti á fjórða glasi eins og vinur minn Elías Kristján Elíasson sagði í ágætu viðtali við sunnudagsblað Moggans nú síðast en hann hefur búið í Stavanger ásamt fjölskyldu síðan í febrúar í fyrra og lætur vel af dvölinni. Svo vel að við teljum dagana þar til við sleppum úr bullinu hér á landi.

En ekki er sopið kálið þótt það steinliggi í ausunni. Eitt stykki MA-ritgerð þarf að yfirstíga áður en við kveðjum gamla landið og einhver tími fer í að troða heljarmikilli búslóð í gám. Ég hlakka lítið til þess verkefnis en er svo sem í æfingu, bar allt mitt hafurtask í og úr flutningabíl í mars 2008 síðast, reyndar með hjálp góðra vina. Eins er ég nýbúinn að aðstoða við að koma einni búslóð í gám fyrir vinafólk mitt sem nú er farið út. Það fækkar á horsælum hérvistarslóðum. Ekki skal mig undra, hér verður lítið við að vera næstu árin annað en botnfrosið hagkerfi, atvinnuleysi og svimandi skattar.

Hagsmunasamtök heimilanna báðu mig að stíga í pontu á Austurvelli á laugardaginn kemur og segja nokkur orð um væntanlega búferlaflutninga og skoðun mína á því sem hér er að gerast. Ég gat ekki hafnað því, nægar skoðanir hef ég á ónýtri ríkisstjórn sem laug þjóðina fulla fyrir síðustu kosningar og Icesave-gúrúinum góða sem síðast fréttist af í sólbaði á Kanaríeyjum. Annar keyrir um Reykjavík á 12 milljóna króna Benz, marggjaldþrota en fínn í tauinu. Og þjóðin kyngir þessu eins og öllu öðru. Ekki ég, ég er ekki þjóðin. Sagði Ingibjörg Sólrún það ekki?

Athugasemdir

athugasemdir