Nokkur orð um ofbeldi

GunnarKynlegir broddborgarar og Vesturbæjarhúsmæður, jafnvel heilu samtökin sem kenna sig við velferð barna, þyrpast nú emjandi fram á blóði drifinn ritvöll lýðnetsins og fárast yfir því að keppni í blönduðum bardagalistum (e. mixed martial arts, MMA hér eftir) á vegum atburðastjórnandans og kynningaraðilans The Ultimate Fighting Championship (UFC hér eftir) flokkist undir hreint og klárt ofbeldi og öðrum þræði að helsti fulltrúi Íslands á þessum vettvangi, Gunnar Lúðvík Nelson, geti ekki talist æsku landsins boðleg fyrirmynd í framgöngu sinni undir merkjum UFC. (MYND: Af Facebook-síðu Mjölnis.)

Rauða þráðinn í málflutningi framangreindra aðila má sjá í athugasemdinni hérna að neðan til hægri (smellið til að fá hana stærri), sem er svar við stuttri athugasemd minni við ágætan pistil á síðu Egils Helgasonar um atburði helgarinnar. Auk þess má finna dæmi um sama málflutning út um allt net en ég dreg þessa athugasemd sérstaklega fram sem prýðisdæmi. Ritari er felmtri sleginn. Hann vill íslensku þjóðfélagi án efa allt til hagsældar en hefur bara rangt fyrir sér.Athugasemd

Keppni á vegum UFC getur aldrei flokkast undir ofbeldi. Þarna berjast einstaklingar af frjálsum og fúsum vilja, fylgja ákveðnum leikreglum, lúta dómgæslu og geta hætt bardaga hvenær sem þeim býður svo við að horfa. Ofbeldi er hins vegar valdbeiting sem þolandi hefur ekki gefið samþykki sitt fyrir. Keppendur í UFC taka vissulega áhættu með þátttöku sinni en þeir samþykkja hins vegar að ef til vill verði lumbrað hressilega á þeim.

Um þetta voru þegar settar reglur í Grágás og ákvæðin svo tekin upp í Mannhelgisbálk Jónsbókar árið 1281 og orðað svona listilega: Nú gengr maðr til leiks, fangs eða skinndráttar at vilja sínum, þá ábyrgist hann sik sjálfr at öllu, þó at hann fái mein eða skaða af. Þessi gamla regla dregur mörk milli leiks og ofbeldis og er í raun UFC í hnotskurn þótt hún sé tæplega þúsund ára gömul og Íslendingar ekki farnir að horfa mikið á UFC á Sturlungaöld svo vitað væri.

Sá sem hér ritar hefur verið viðloðandi sjálfsvarnaríþróttir að miklu leyti frá 1983, stundað júdó, taekwondo og kickbox, tvö stílafbrigði af karate, keppt í júdó og karate og tekið svart belti 1. dan í shotokan karate. Í þessu öllu saman hef ég brotið bein í sjálfum mér, tognað n sinnum, kýlt mann í tönn svo ég þurfti stífkrampasprautu, fengið spark í hausinn svo suðaði í honum dögum saman, farið mjög myndrænt úr lið á löngutöng hægri handar og mölbrotið ýmis bein í öðru fólki, þar á meðal rifbein í sama einstaklingi tvær karategráðanir í röð með tæplega árs millibili (fyrirgefðu Bergsteinn, gamli víkingur!).

Ekkert af þessu dytti mér þó í hug að kalla ofbeldi. Öll þessi atvik áttu sér stað á íþróttaæfingum eða -keppni þar sem löglegur aðbúnaður og viðurkenndir þjálfarar og/eða dómarar voru til staðar. Ég og aðrir fengum meira að segja stundum refsistig fyrir tækni sem að mati dómara taldist brot á reglum viðkomandi greinar og einhverjir voru jafnvel dæmdir frá keppni. Nákvæmlega það sama gildir um keppnir á vegum UFC, þeim er stjórnað, þær eru samþykktar af þátttakendum og um þær gilda reglur. Ergo: UFC hefur ekkert með ofbeldi að gera.

Gunnar Nelson, hvort tveggja sem persóna og íþróttamaður (og holdgervingur íslenskrar þrautseigju og æðruleysis), er einmitt nálægt því að vera hin fullkomna fyrirmynd íslenskra (og annarra þjóða) barna og ungmenna. Með fullkomnu öfgaleysi sínu, auðmýkt og alþýðuskap hefur honum á tiltölulega stuttum ferli sem landsþekktur íþróttamaður tekist að skapa sér ímynd sem geislar af hreysti, skynsemi og aga, um það bil þeim eiginleikum sem ættu að duga hvaða vandræðagemlingi eða meðalskussa sem vera skal til að finna lífi sínu farsælan farveg. Íslendingar hafa átt sér margar góðar fyrirmyndir úr röðum íþróttamanna og í þeim hópi stendur Gunnar mjög framarlega.

Hins vegar má lengi ræða hversu ung börn ættu að horfa á keppni í bardagaíþróttum, einkum þar sem keppt er full contact, það er árásartækni er notuð af óbeisluðum krafti, og eins er umhugsunarefni hvernig börn túlka íþróttakeppni þar sem bardagi fer fram og hvernig heppilegt sé að skýra slíkt út fyrir börnum. Það kemur undarlegri þjóðfélagsumræðu síðustu daga hins vegar lítið við.

Eftir stendur að keppni á vegum UFC getur aldrei með réttu kallast ofbeldi og sem persóna stangast Gunnar Nelson ekki á við eitt einasta gildi í lífsstíl fyrirmyndaríþróttamanns.

Eitt af því sem ég sakna síðan fyrir daga lýðnetsins er að sleppa við málflutning fólks sem veit ekkert um hvað það er að tala…

 

Athugasemdir

athugasemdir