Eftir hroðalegt brennivínslegið sumarfrí er loksins komið að því að gera bragarbót í stálinu. Ég er búinn að æfa svona þokkalega frá því að við komum hingað frá Amsterdam til þess að takast á við raunveruleikann aftur. Það hefur þó allt virkað eins og hálfgerð endurhæfing eftir þriggja vikna drykkju og ég er núna fyrst að komast upp í núllið. Vigtaðist 95,6 kg í dag nakinn og svitnaður (sem sagt eftir æfingu).
Þess vegna tók ég þá ákvörðun í síðustu viku að haustið 2011 yrði haust hrikalegra bætinga og þannig verður það. Ég skellti mér í hina ágætu verslun Kost1 um helgina og náði mér í þau fæðubótarefni sem munu vonandi þoka mér í átt að settu marki ásamt fimm djöfullegum æfingum á viku í Elixia. Kost1 er ágætisbúlla og býður upp á mun hagstæðara verð en til dæmis Nordic Power sem ég hef einnig verslað við og hefur þokkalega hluti á boðstólum, til dæmis Pure Brutal Gainer sem skilaði mér nokkrum kílóum í líkamsþyngd í fyrrahaust. Hægt er að nálgast verslanir Kost1 í Stavanger og Sandnes auk þess sem þeir standa fyrir umfangsmikilli vefverslun.
Grunnurinn að þessu ógurlega massahausti er þyngingarblandan Mutant Mass frá PVL Certified Sports Nutrition í Kanada (sjá mynd að ofan). Sjö kílógramma poki á aðeins 599 krónur norskar. Inniheldur í hverjum skammti (miðað við 260 grömm pr. skammt) 52 grömm af ISO Stack 10-próteinum, 170 grömm af flóknum kolvetnum, tonn af amínósýrum og 1.050 hitaeiningar sem er svakalegt magn miðað við eina blöndu. Svona fleygir tækninni fram. Þetta er reyndar bara brot af innihaldinu en afganginn má kynna sér hér.
Til þess að styðja við þessa sprengju tók ég einnig pakkann sem sjá má á meðfylgjandi mynd og er frá vinstri til hægri: ZMA frá Danutrition í Danmörku, sem er blanda af sinki, magnesíum og B6 vítamíni, ZEUS Test Booster frá Fusion Bodybuilding í Ástralíu sem eykur náttúrulega testósterónframleiðslu líkamans á algjörlega löglegan hátt, ótrúlegt en satt, Thermo Tea-fitubrennslutöflur sem einnig koma úr smiðju PVL í Kanada eins og Krea Bolic-kreatínið í næstu krukku en það er þriðja kynslóð kreatíns, samsett úr etýl ester kreatíni, þríkreatíni og kre-alkalíni sem ekki þarf að taka með fimm daga hleðsluskammti eins og kreatínið í gamla daga heldur gefur það dúndurspark frá fyrsta degi og neysluskammtur er sá sami allan kúrinn. T-Rex fitubrennnslutöflur frá MyRevolution hér í Noregi tilheyra frúnni og ég vil ekki prófa þær samhliða Thermo Tea-töflunum og svo er þarna á bak við dunkur með Uni Liver-amínósýrutöflum frá hinu gamalgróna Universal Nutrition í Bandaríkjunum. Þetta eru hlunkstórar töflur framleiddar úr lifur argentínskra nautgripa sem eingöngu hafa verið aldir á hreinu grasi og aldrei fengið neitt ónáttúrulegt fóður eða lyf alla sína ævi. Leiðinlegt fyrir þá greyin en algjör amínósýrubomba og mikil próteinuppspretta.
Ég verð sem sagt nálægt 200 kílóum að þyngd um jólin eða svo.
Elías Halldór Elíasson, einnig nefndur Rörið, leit í heimsókn til mín í kvöld og fórum við yfir stöðuna í rólegheitum. Annar sonur hans er búsettur hér og hinn vonandi á leiðinni að flytja hingað, báðir góðir vinir mínir. Við rifjuðum meðal annars upp tímann þegar kallinn var framkvæmdastjóri KR síðasta áratug síðustu aldar og kynntist þar ýmsum mannkostamönnum, þar á meðal Óskari Hrafni Þorvaldssyni, fyrrum frétta- og ritstjóra hjá 365 og yfirmanni mínum í tæp tvö ár meðan ég starfaði þar. Heimurinn er lítill og fer ört minnkandi.
Nú kallar rúmið með sinni seiðandi röddu enda fer í hönd síðasta heila vinnuvika mín á Háskólasjúkrahúsinu hér í Stavanger. Svo á ég þrjá daga vikuna þar á eftir og þar með lýkur dvöl minni á þeim ágæta vinnustað. Þetta líður allt.