Myndirnar úr kirkjunni komnar í hús

kirkjaBjörgvin Hilmarsson var að senda mér 71 mynd sem hann tók við athöfnina 30. júní. Mjög vel gert hjá honum eins og ég vissi fyrir fram. Hann sendi mér myndirnar annars vegar í fullri stærð, ekki nema 717 megabæt sem mig minnir að samsvari um það bil bíómynd í fullri lengd, og hins vegar í hentugri netstærð. Þetta er núna auðvitað allt komið á Facebook, fyrst ég er byrjaður þar. Ættmenni og vinir sem ekki eru á Facebook fá rjómann af myndunum sendan í tölvupósti en geta svo skoðað þær 42 myndir sem fóru á Facebook hjá fólki sem er á Facebook. (MYND: Þessi er að verða vinsælust hjá Facebook-notendum sé ég á ummælum./Björgvin Hilmarsson)

Ég bíð eftir myndbandinu úr kirkjunni og síðast en ekki síst af Bubba og hans mögnuðu frammistöðu í veislunni en Kári bróðir sendir mér það í vikunni. Þar með leggst sú erfiða skylda á mig að útvega mér eitthvert forrit til að klippa efni af .mov-skrám og læra á það. Einmitt ekki mín sterka hlið. Þetta birtist svo hér OG á Facebook svo ég reyni að uppfylla til hins ýtrasta skyldur mínar sem netvæddrar upplýsingaveitu þrátt fyrir að það færi mig á barm taugaáfalls. Ætli jarðarförinni minni verði gerð svona góð skil á Facebook?kirkjaii

Í þessum skrifuðu orðum er frekar stuttu helgarfríi að ljúka. Það hófst klukkan 18:00 í gærkvöldi og spannaði svo daginn í dag. Á morgun skellur hinn félagslegi raunveruleiki á mér á ný, vakning klukkan 06:00, vinna og líkamsrækt en virkni mín í City Gym hófst einmitt á ný í dag eftir sumarfrí auk einnar viku í aðlögun (leti). Ég kom sjálfum mér stórkostlega á óvart með því að rífa upp 100 kg í bekk eftir að hafa ekki lyft neinu þyngra en glasi af gin og tónik síðan 23. júní. Að líkindum bíða mín þægilegar sperrur á morgun. Það verður bara ljúft. (MYND: Fyrsti kossinn (eða þannig). Séra Bjarni glottir við tönn. Við hefðum ekki fengið betri mann í að pússa okkur saman þótt sjálfur páfinn hefði mætt þarna./Sigurbjörn Bjarnason búfræðingur)

Áætlun næstu vikna er að snúa rækilega við blaðinu í þeirri þróun sem nú er ég gangi. Ég held að ég sé að fá hvort tveggja epla- og peruvöxt auk appelsínuhúðar. Af ávöxtunum skulið þér þekkja þá, ég segi ekki annað.

Athugasemdir

athugasemdir