Mottumars – útvíkkun mottuhugtaksins

mottumarsÉg get ekki hummað það fram af mér lengur að taka þátt í Mottumars, gott málefni er gulli betra. Eftir rækilega umhugsun fannst mér hins vegar ótækt að safna bara mottu, það er allt of sænskt og ég er við það að fá nóg af Svíum eftir tvö ár í Noregi. Miklum vangaveltum síðar datt ég niður á svarið sem er útvíkkun mottuhugtaksins: Allur hausinn sem motta! Hæfilega djúp speki í anda Konfúsíusar og fleiri gallharðra heimspekinga.

Þar með var það komið og framkvæmdin ekki flókin, ég einfaldlega fiskaði Mach 3 sköfuna og rakfroðuna frá Gillette upp úr íþróttatöskunni og lagði þessa gripi, sem í áratug hafa haldið höfði mínu og ásjónu sléttu sem rassi barns, á hina góðkunnu hillu. Eftir það kom þetta að mestu af sjálfu sér.

Nú hef ég stigið skrefið til fulls og skráð mig á mottumars.is með markmiðið eina milljón í áheit til styrktar krabbameinsvörnum. Eini ljóðurinn á ráði aðstandenda síðunnar er að maður verður að velja sér sveitarfélag á Íslandi við skráninguna. Þetta olli mér heilabrotum þar sem ég bý tæknilega séð í sveitarfélaginu Stavanger í Rogaland í Noregi. Ég valdi þess vegna Garðabæinn sem sveitarfélag enda hef ég lengst af búið þar eða 22 ár auk þess sem Kári bróðir býr þar og hann kemst erfðafræðilega næst því að vera ég þótt við séum ekki beint líkir í útliti.

Hér með skora ég á alla lesendur atlisteinn.is og Íslendinga almennt til sjávar og sveita að dúndra áheitum á þetta flæmi sem motta mín er og styrkja með því rannsóknir, forvarnir, stuðning og ýmis önnur verkefni sem tengjast baráttunni við krabbamein í karlmönnum. Hægt er að finna mig undir einstaklingskeppni á mottumars.is með því að leita eftir nafni, sveitarfélagi eða hvoru tveggja. Mér hefur þarna verið úthlutað númerinu 1258.

Heitið er á mottu mína með því að senda SMS eftir leiðbeiningum á síðunni en eins er hægt að greiða með millifærslu eða biðgreiðslukorti (kreditkorti). Leggið lóðið á vogarskálina, engin upphæð er of há! Á næsta ári rúlla ég svo upp liðakeppninni með dyggri aðstoð Svía.

Athugasemdir

athugasemdir