Móðgun við landnámsmann

byssaNáttfari hét sænskur þræll Garðars Svavarssonar landnámsmanns ef marka má frásögn Landnámabókar. Hann varð viðskila við Garðar á siglingu ásamt þræl og ambátt og nam samkvæmt sögunni land við Skjálfandaflóa í Suður-Þingeyjarsýslu þar sem síðan heitir Náttfaravík. Auðvitað er þetta aðeins frásögn Landnámu og vel hugsanlegt að sagan hafi orðið til á eftir örnefninu og verið samin í kringum það. Hver veit?

Ómerkilegur innbrotsþjófur á Selfossi, sem hlotið hefur sama nafn í fjölmiðlum og farið nóttum um bæinn og stolið verðmætum úr ólæstum bílum um nokkurt skeið, var að lokum gripinn glóðvolgur í fyrrinótt eftir að lögregla egndi gildru fyrir hann og náði þessu líka fína myndbandi af þessu snautlega ómenni að athafna sig. Sjá þessa frétt Stöðvar 2 um málið. Prik í kladdann fyrir Selfosslögguna.

Sú alda innbrota sem gengið hefur yfir landið síðustu misseri og náð jafnt til heimila, bíla og sumarbústaða er með öllu ólíðandi og gjörsamlega út í hött að þessir aumingjar séu lausir eftir stutta yfirheyrslu og geti, í mörgum tilfellum, farið beint af lögreglustöðinni og inn um næsta glugga. Seint og um síðir, þegar brotin eru orðin nógu mörg, dynur dómsins mikla gígja og hljóðar oftar en ekki upp á þriggja til sex mánaða skilorðsbundinn dóm enda ekkert pláss í fangelsum landsins fyrir þetta hyski sem getur ekki séð eigur annarra í friði. Margir minnast bíræfins innbrots í Hafnarfirði í fyrra þar sem þjófarnir tóku það sem hugurinn girntist og óku að lokum burt á heimilisbílnum.

Þá fer ránum í hvers kyns verslunum, einkum þeim sem opnar eru allan sólarhringinn, fjölgandi og ryðjast þar inn slefandi vanvitar með sprautunálar, axir og aðra atgeira, hótandi ofbeldi fái þeir ekki það litla fé sem oftast er í kassanum. Gjarnan eru þetta sömu kantmenn lífsins sem þarna eru að verki og yfirleitt eru þeir hirtir upp samdægurs eða daginn eftir þegar búið er að bera kennsl á þá með upptökum öryggismyndavéla eða spyrjast fyrir í sollinum um hverjir gangi um bæinn með seðlabunka, fartölvur og DVD-spilara.

Þessi dritmenni eru krabbamein á samfélaginu og engum til gagns. Innrás á heimili saklauss fólks er ófyrirgefanleg og gerendur eiga að mínu viti að sæta þyngri refsingu en skilorðsdómum sem skipta þá engu máli og hafa lítil eða engin varnaðaráhrif. Flestir fara beint af stað aftur. Í 15 ríkjum Bandaríkjanna er íbúum heimilt að skjóta innbrotsþjófa inni á heimilinu án viðvörunar. Átta ríki til viðbótar íhuga að lögleiða slíkar heimavarnir. Í sumum af hinum 15 ríkjum nær varnarrétturinn einnig til innbrots í bifreið sem er í samræmi við ákvæði stjórnarskrár Íslands um friðhelgi heimilisins en hún nær einnig til bifreiðar.

Auðvitað hafa orðið slys, eins og í Texas fyrir einhverjum árum þar sem japanskur skiptinemi sem kunni ekki nema þrjú orð í ensku fór húsavillt á hrekkjavöku og stormaði inn á ókunnugt heimili, dulbúinn sem einhver ófögnuður. Eftir að húsbóndinn hafði skorað á hann í þrígang að gera grein fyrir sér en ekki fengið annað en ítarlega greinargerð á japönsku skaut hann hinn óboðna gest til bana en hin svokölluðu ‘Shoot First Law‘ í Texas ganga víst einna lengst og heimila nánast varnarskothríð um leið og dyrabjöllunni er hringt.

Hér heima höfum við 12. grein hegningarlaga um nauðvörn með ákveðnum skilyrðum: ‘12. gr. Það verk er refsilaust, sem menn vinna af neyðarvörn, að því leyti sem það hefur verið nauðsynlegt til þess að verjast eða afstýra ólögmætri árás, sem byrjuð er eða vofir yfir, enda hafi ekki verið beitt vörnum, sem séu augsýnilega hættulegri en árásin og tjón það, sem af henni mátti vænta, gaf ástæðu til.

Þetta ákvæði mætti auka og endurbæta með því að innbrot á heimili, þar sem íbúar, og jafnvel börn, eru í fasta svefni, víki að einhverju leyti frá hinu almenna skilyrði greinarinnar um hættueiginleika varna. Brotamaðurinn ætti að hafa unnið sér til óhelgis með því að fara huldu höfði inn á heimili annars manns í þeim tilgangi að fremja þar afbrot. Heimilið er friðheilagt segir í stjórnarskrá. Heimilisfólki ætti að mínu viti að vera það refsilaust að taka til varna af öllum mætti, jafnvel þótt brotamaðurinn endi í kistu. Ég efa ekki að slík lagabreyting lægði þá öldu innbrota sem hér hefur risið frá bankahruni. Eins hrun er annars brauð.

Athugasemdir

athugasemdir