Mjök erum tregt tungu at hræra

gorillaviEftir ágætt atvinnuviðtal hjá Rowan Drilling í gær barst mér atvinnutilboð símleiðis klukkan 14:43 í dag. Forsvarsmenn fyrirtækisins hafa komist að þeirri niðurstöðu að þeir vilji gjarnan ráða mig sem lagerstjóra (n. material mann) á eitt af flaggskipum borpallaflota síns, Rowan Gorilla VI, sem um þessar mundir er staddur í slipp í Rotterdam í heilmiklu breytingaferli áður en hann hefur samningstímabil sitt sem einn af pöllunum í flóru fjögurra verktaka hjá ConocoPhillips í janúar 2014 og viðbót við Rowan Norway sem þar er á fleti fyrir frá sama fyrirtæki. (MYND: Nýja skrifstofan mín. Jack-up pallar standa á hafsbotninum, fæturnir á Gorilla VI eru 185 metra langir. Hallgrímskirkja er 74 metra há.)

Vaktafyrirkomulag verður hefðbundið norskt offshore, tvær vikur úti og fjórar vikur í frí. Þetta táknar vitaskuld að ég þarf að ná samningum við núverandi vinnuveitanda, ConocoPhillips, um að fá að starfa hjá þeim í landvistinni til að fyrirbyggja andlega bilun af völdum of mikils frítíma og þau dæmigerðu örlög norskra borpallastarfsmanna að liggja dauðadrukknir í Taílandi eða á Spáni heilan mánuð átta sinnum á ári. Fundur um þetta er boðaður klukkan 09:00 í fyrramálið. Þá fæ ég líka að vita hvenær CP treystir sér til að sleppa af mér hendinni svo ég geti hafið starfsþjálfun hjá Rowan.

Þetta verkefni, sem tók í heildina tvö og hálft ár, hefur kostað fyrirhöfn sem var farin að fara í mínar fínustu. Rúmlega 300 klukkustundir af námskeiðum, tæpar 80.000 norskar krónur og síðast en ekki síst ómælda þolinmæði sem er langt frá því að vera sterka hliðin á þessum bænum. Það sem kemur á óvart er að ég þurfti ekki nema þrjár atvinnuumsóknir frá lokum brønnteknikk-námskeiðsins í maí en þar stend ég án alls vafa í mestri þakkarskuld við frábæra meðmælendur hjá ConocoPhillips og því miður sennilega loforð af þeirra hálfu sem ég mun seint rísa undir.

En ég hef svo sem ekki gengið að tilboði Rowan Drilling enn þá. Til þess hef ég morgundaginn og hvers vegna ekki að leyfa þeim að engjast? Þeir segjast fá 300 atvinnuumsóknir á dag svo þeir ættu að minnsta kosti að hafa eitthvað að lesa á meðan. Auðvitað eru þó yfirgnæfandi líkur á að af þessu verði. Séu olíubirgðir í Norðursjónum til minnst 100 ára í viðbót, vitlaust að gera í bransanum og laun eftir því tekur maður svona tilboði. Snýst að mestu um að hagsmunir sem flestra fari saman, þá er í raun allt hægt.

Eðlilega fer maður samt alltaf að hugsa…úps, hvað ef ég verð úti á palli á fertugsafmælinu mínu, á 25 ára gaggóendurfundum í maí eða um jól, páska, hvítasunnu? Kannski við öll þessi tilefni. Er ég ekki sofandi þriðjung ævinnar hvort sem er, af hverju er maður svo sem að missa?

Jú jú, ætli maður láti ekki vaða. The future is now, segir ConocoPhillips.

Athugasemdir

athugasemdir