Milli heima – heimsókn mín til miðils

skliI. Þung skref í Vesturbænum (myndin er af Skúla Lórenzsyni)
Það er gott að ganga um Vesturbæinn að vori. Þótt ég kalli mig Garðbæing eftir öll árin þar slitnuðu barnsskórnir á Sólvallagötunni og nágrenni hennar, þar hjólaði ég fyrst eftir gangstéttinni dyggilega studdur hjálpardekkjum og beint á móti æskuheimili mínu var sælgætisgerðin Linda sem í augum fimm ára drengs var stórveldi sem gaf Baugi, Samson og FL Group nútímans ekki einni millimetra eftir. Þar starfaði líka afi Kötlu Maríu sem söng svo eftirminnilega lögin Lítill Mexíkani og Ég fæ jólagjöf. Katla María gaf mér einu sinni súkkulaði þegar ég hitti hana fyrir utan Lindu og sú upplifun var einna líkust því að sjálfur Messías hefði stigið niður af himnum og rétt mér Prins Póló. Ekki það að mér þætti eitthvað varið í tónlistina hennar þannig séð en hún var samt bjartasta vonin fyrir þá sem voru ekki enn dottnir inn í Brunaliðið eða Þursaflokkinn.

Þann dag sem þessi frásögn greinir var samt eitthvað öðruvísi að ganga um göturnar í Vesturbænum. Þetta var að áliðnum mars 2007 og þótt sól skini í heiði og síðustu snjótittlingar vetrarins syngju á greinum og girðingum ekki síður en Katla María gerði tæpum þremur áratugum áður var söngur þeirra öðruvísi og skin sólarinnar einhvern veginn ekki af þessum heimi. Kannski hafði ég svip hins dauðvona manns, bjartan og forkláraðan, því að sól annars heims væri að rísa yfir mig. Eins og gamli maðurinn sem dó í Heimsljósi Kiljans. Nei, ég var ekki dauðvona, ég var fullur af lífi þar sem ég gekk eftir Garðastrætinu. En ég átti fyrir mér þau forréttindi að eiga eins og eina klukkustund í faðmi þeirra sem þegar voru farnir héðan.

Garðastræti 8 hýsir Sálarrannsóknarfélag Íslands. Félagið varð til í desember árið 1918 og samkvæmt lögum þess er því ætlað að efla áhuga og virðingu almennings á andlegum málum, stuðla að mann- og hugrækt og standa að almennri fræðslu um andleg mál, með áherslu á kynningu á sálarrannsóknum nútímans. Ekki er mér kunnugt um hvernig félaginu gengur að uppfylla þessi háleitu markmið og í raun læt ég mér það í léttu rúmi liggja. Áhugi minn og virðing á andlegum málum var til staðar löngu áður en ég stofnaði til kynna við aðila innan Sálarrannsóknarfélagsins svo ekki hefur það komist langt með mig hvað það varðar. Í félaginu voru margt fyrir löngu afi minn og amma í móðurætt auk móðursystur minnar sem þýddi fjölda bóka um andleg málefni á íslensku. Afi var lengi innsti koppur í búri í félaginu og uppi í hillu hjá mér er Morgunn, tímarit félagsins, innbundið, allt frá fyrsta tölublaði.

II. Skúli Viðar Lórenzson og Alexander Graham Bell

Ég er svo sem enginn spíritisti og engin ákveðin trúarbrögð aðhyllist ég. Öll hafa þau nokkuð til síns máls að mínu viti og öll eru þau græðlingur af sama meiði. Sammannlegri vitund og þörf okkar fyrir trú. Ópíum fólksins. Hins vegar er mér fullkunnugt um að þroskasaga mannkynsins gengur út á annað og meira en að fæðast, vinna, sofa, borða, fara á eftirlaun og deyja saddur lífdaga eða bláfátækur, bitur og snauður. Eitt svoleiðis ferli frá a til ö er einungis áfanginn LÍF 103, 203 og svo framvegis eftir því hvar hver og einn er staddur á vegferð sinni frá hinu ókennilega til hins óendanlega. Í því ferli er engin hraðferð. Lærðu heima og stattu ekki á gati þegar þú ert tekin(n) upp. Þá skilarðu þér yfir í næsta áfanga. Og hér er enginn Alþjóðagjaldeyrissjóður til bjargar á ögurstundu. Eigin verðleikar eða engir verðleikar. Lífið er hið sanna nám.

Ég opnaði dyr þessa virðulega húss við Garðastrætið eilítið hikandi en engu að síður drifinn áfram af forvitni, von og bjartsýni. Þröngur stigi liggur upp á aðra hæð þar sem brosmild kona tók á móti mér, krafði mig um fimm þúsund krónur og lét mér í té hljóðsnældu er tryggja skyldi mér orðrétt um ókomna tíð alla þá merkilegu hluti er opinberuðust mér næstu klukkustundina. Mér þóttu þeir að minnsta kosti merkilegir. Einkafundur hjá hálftransmiðli er oftar en ekki frekar lítilvægur fyrir aðra en þá sem hann sækja. Þeir geta reyndar verið fjölmargir þótt aðeins tveir þeirra séu í jarðlíkama, í þessu tilfelli miðillinn og ég. Hálftransmiðill tekur við boðum frá öðrum stöðum í vökuástandi, hann fellur með öðrum orðum ekki í trans heldur situr glaðvakandi og ræðir við mig.

Þessi merkilegi maður heitir Skúli Viðar Lórenzson. Hann er búsettur á Akureyri og starfar að jafnaði þar en heimsækir Sálarrannsóknarfélagið nokkrum sinnum á ári. Býður hann þá upp á einkafundi, heilun, hlutskyggni og hópfundi, allt eftir því hvað hver og einn telur sér hentast.

Ég sagði áðan að ég aðhylltist engin sérstök trúarbrögð enda tel ég miðilsfundi ekki hafa mjög mikið með eiginlega trú að gera nema að mjög litlu leyti. Í mínum huga snýst upplifunin um að kanna þanþol raunveruleikans og skoða leiðir yfir á önnur efnissvið. Mér finnst þetta vera meira í ætt við eðlisfræði en trúarbrögð. Þú leitar uppi manneskju sem getur numið skilaboð frá vitsmunaverum á öðrum stigum. Er það í raun svo frábrugðið því þegar Alexander Graham Bell fann upp símann? Hann afrekaði með því að ræða við vitsmunaverur sem voru á öðrum stöðum en hann þótt þær væru í sama heimi.

III. Það kemur hérna kona
‘Er móðir þín hér á jörðinni?’ spyr Skúli mig. Ég er sestur á móti honum í þægilegan en fornfálegan stól og líður ágætlega. Hann situr við gluggann. Maðurinn hefur örlítið sérstakan talanda. Hann talar hratt og mikið og dálítið í belg og biðu. Inn á milli kemur svo ‘jahá’ með þungri áherslu eins og ég sé að opinbera honum mikinn sannleika. Opinberunin er þó alfarið á hans könnu þennan fallega vordag árið 2007. Ég er hlustandinn.

Ég svara spurningu hans neitandi enda sjö ár liðin síðan móðir mín kvaddi þennan heim á vordögum ársins 2000. ‘Jahá, það kemur hérna kona og ég sé að þið eruð ekkert ósvipuð,’ heldur miðillinn áfram og lítur á mig íhugulum og rannsakandi augum sem virðast sjá í gegnum holt og hæðir. Skúli spyr í framhaldinu hvort móðir mín hafi átt við veikindi að stríða áður en hún dó og ekki get ég svarað þeirri spurningu neitandi þar sem bráðahvítblæði dró móður mína til dauða á örfáum mánuðum á sínum tíma.

‘Þegar hún áttaði sig á því hvernig hlutirnir voru þá tók hún því með stakri prýði, hún talaði ekkert mikið um hlutina, kannastu við þetta?’ spyr Skúli. Ég hélt það nú aldeilis, ef einhver bar sig vel í veikindum, jafnvel þótt þau væru banvæn, var það hún móðir mín heitin og ekki hef ég þekkt skipulagðari konu um mína daga. Af æðruleysi ritaði hún æviágrip sitt sjálf er hún sá í hvað stefndi, það er þjóna skyldi sem inngangur að minningargreinum, afhenti mér á disklingi og bað mig bara að setja inn rétta dánardagsetningu þegar kallið kæmi.

‘Jahá,’ hljómar hið kunnuglega vanaávarp miðilsins. ‘Mér finnst dálítið eins og hún sé að segja mér að þú þurfir að vera í meira sambandi við bróður þinn og hlúa betur að þeim tengslum. Hann er yngri en þú og hefur verið dálítið tvístígandi, getur það ekki verið?’ Það stendur heima að bróðir minn er fimm árum yngri en ég og rétt er það líka að hann hefur ekki alltaf verið harðákveðinn í því hvaða stefnu hann ætli sér að taka í lífinu. Þegar þessi fundur minn með Skúla átti sér stað í fyrravor hafði drengurinn þó lokið sveinsprófi í matreiðslu fáum árum áður og starfað sem kokkur á Lækjarbrekku um nokkurt skeið á eftir. Hann hafði þó skipt um vinnustað og átti nokkrum mánuðum eftir samtal okkar Skúla þennan dag eftir að ráða sig á nýjum stað þar sem hann starfar þegar þetta er ritað og stefnir ekki í að breyting verði á í bráð.

IV. Stúlkan
‘Mig langar líka til að spyrja þig af því að nú kemur hérna lágvaxin elskuleg kona og mér finnst eins og verið sé að tala um móðurömmu þína. Getur verið að hún hafi alið þig upp að hluta til?’ Mér er skemmtilega brugðið því varla hefði Skúli getað lýst ömmu heitinni betur. Þessi smávaxna og síbrosandi aldna kona féll frá í ársbyrjun 1999 og var amma af gamla skólanum. Hún fæddist og ólst upp í Skálholti og féll varla verk úr hendi alla sína ævi. Ávallt var hún komin á fætur fyrir allar aldir og tekin til við að þurrka af og taka til auk þess sem hún stagaði og bætti fatnað allra fjölskyldunnar um margra áratuga skeið.

Þannig háttaði til að móðurforeldrar mínir bjuggu hjá foreldrum mínum frá því fyrir mína fæðingu og það stendur því alveg heima að amma hafi alið mig upp að hluta til. Ég kom í þennan heim vorið sem foreldrar mínir fluttu heim frá Michigan þar sem þau lögðu bæði stund á framhaldsnám og þá tók vinnumarkaðurinn við hjá þeim báðum. Þau bjuggu í kjallaranum á húsinu okkar við Sólvallagötu en afi og amma uppi og þangað fór ég í pössun til ömmu fyrstu árin. Slíkar uppeldisaðstæður eru sennilega ómetanlegar og margt lærði ég af gömlu konunni, meðal annars drakk ég þar fyrst kaffi fjögurra ára gamall og þann sama vetur hafði henni tekist með harðfylgi að kenna mér að lesa sem síðar varð til þess að ég hljóp yfir fyrsta bekk barnaskólans.

‘Hún er bara svo ánægð gamla konan af því að hún átti svo mikið í þér þegar þú varst gutti og hún segir mér að þú hafir alltaf verið snöggur upp og snöggur að gera hlutina og hún er að biðja þig um að halda bara áfram á sömu braut vegna þess að þér gengur vel segir hún. Þú veist hvað er verið að tala um,’ heldur Skúli áfram með sérstökum talanda sínum og ég sé að það vottar fyrir aðkenningu að brosi í líflegum gráum augunum.

‘Ert þú sjálfur kominn í sambúð í dag eða er stúlka í kringum þig?’ spyr Skúli mig næst. Á þeim tíma var ég ekki í sambúð og neita því en hann heldur áfram og segir mér að á næstu fjórum mánuðum finnist honum eins og það sé komin kona í kringum mig og drengur. Ég kinka kolli til Skúla án þess að ræða málið sérstaklega en hann er þó ekki fjarri hinu sanna í málinu þar sem samband mitt og fyrrverandi samstarfskonu minnar var í mótun einmitt um þetta leyti og síðar átti það eftir að enda í sambúð. Það leiðir okkur að næstu skilaboðum sem Skúli sagði koma frá ömmu en að hans sögn voru þær móðir mín báðar í herberginu.

‘Ég veit ekkert af hverju er verið að tala um íbúð, ertu eitthvað að fara að breyta um íbúð eða flytja?’ Þessi skilaboð fannst mér vera algjörlega úr lausu lofti gripin og brosti með sjálfum mér. Ég játaði fyrir Skúla að ekki stæði nú annað fyrir dyrum en að skipta um gler í nokkrum gluggum í íbúðinni minni við Bragagötuna. Skipt hafði verið um helminginn vorið 2004 og við nágrannarnir höfðum bundist fastmælum um að skipta um það sem eftir stóð árið 2009. En ég var síst á þeim buxunum að flytja enda unnustan verðandi búsett aðeins steinsnar frá mér, á Grettisgötu. Einfalt og þægilegt.

Ekki leið þó nema hálft ár frá þessum merkilega fundi þar til ég er staddur á leiðinlegum fyrirlestri og er á flakki um hinn vefræna fasteignagagnagrunn Morgunblaðsins með hjálp fartölvu. Þetta var 2. október og reisulegt tvílyft einbýlishús í sveitasælunni í Mosfellsbænum fangar athygli mína fyrirvaralaust. Garðabæjareðli mitt rumskaði strax þar sem hverfið er ekki ósvipað Flötunum í Garðabæ þar sem ég hef enn sem komið er lengst búið. Til að gera þá löngu sögu sem svo fór í hönd stutta gerðum við tilboð í þetta hús í lok október og undirrituðum kaupsamning 21. nóvember, nánast sléttu ári áður en þessum línum er varpað á skjá. Inn fluttum við svo í mars, réttu ári eftir að ég harðneitaði því hjá Skúla miðli að búferlaflutningar stæðu fyrir dyrum. Enginn veit sína ævina fyrr en öll er.

V. Bjart fram undan
Þessa stuttu stund sem ég sat með Skúla sagði hann mér margt sem ég kannaðist við, margt sem ég kannaðist ekkert við en varð síðar að raunveruleika, sumt með óhugnanlega skýrum hætti, og margt sem ég kannaðist ekki heldur við og hefur ekki enn orðið að raunveruleika. Ýmsir litu inn, þar á meðal föðurafi minn sem fórst með togaranum Braga í síðari heimsstyrjöldinni þegar faðir minn hafði ekki náð eins árs aldri. Lýsing Skúla á honum staðfesti faðir minn síðar að væri rétt. Nú ætla ég að segja stuttlega frá spá sem Skúli bar þennan afa minn fyrir og mér þótti fremur ólíklegt að gengi eftir. Sannlega segi ég yður að trú mín var ekki næg.

‘Ég vil líka segja þér í sambandi við skrokkinn á þér að þú þarft að vera duglegur að labba. Þú hefur verið að æfa mikið er mér sagt og þú verður að gæta að bakinu á þér, sérstaklega þarftu að vera duglegur að teygja því hann sýnir mér að það er eins og það verði eitthvað með bakið á þér sem þú þarft að passa upp á. Ertu duglegur að teygja á?’ Samviskulega svara ég því til að svo væri sem var rétt þar sem ég hafði æft karate frá árinu 2000 og stundað þar miklar teygjur auk þess sem ég lagði stund á jóga í tæpt ár samhliða því. ‘Jahá,’ segir Skúli sposkur á svip. ‘En ég ætla samt að biðja þig að muna það sem ég er að segja þér núna og biðja þig að ganga mikið og passa vel upp á bakið.’

Þetta segist ég munu hafa hugfast og gerði það reyndar en á haustdögum, sennilega um svipað leyti og við festum okkur húsið í Mosfellsbæ er ég farinn að finna fyrir óþægilegum verk frá mjóbaki og niður í hægri fót sem ágerðist svo eftir því sem nær dró áramótum. Í desember fæst það svo staðfest með sneiðmyndatöku í Domus Medica að ég er með myndarlegt brjósklos milli lumbar fimm og sacralis einn, þar sem reyndar 95 hundraðshlutar alls brjóskloss í baki eiga upptök sín að sögn fræðinga. Fór svo að í febrúar 2008 lagðist ég á skurðarborðið og sá góði maður Aron Björnsson, heila- og taugaskurðlæknir, fjarlægði brjóskstykki á stærð við sykurmola úr bakinu á mér. Tók þetta hvimleiða fyrirbæri sig svo upp að nýju í sumar sem leið og undir hnífinn lagðist ég á ný í júlílok og hef verið nokkuð bærilegur til heilsunnar síðan, sjö, níu, þrettán. Það var ekki fyrr en einhvern tímann mitt á milli þessara tveggja skurðaðgerða að orðum togarasjómannsins sem hvarf í hafið með Braga í mars 1940 og var afi minn laust niður í huga mér en þau höfðu mér þótt fremur fjarstæðukennd í mars 2007. Ég ítreka að enginn veit sína ævina.

Ég vil ekki segja skilið við þessa frásögn án þess að minnast á tvo unga menn sem birtust miðlinum og báðum þótti að hans sögn ákaflega gaman að fá að koma og heilsa upp á mig. Annar er Pétur Ingi Þorgilsson heitinn, skólabróðir minn úr Menntaskólanum í Reykjavík, sem féll niður af þaki í september 1993 og lést. Það var aldrei ljóst hvort um slys var að ræða eða sjálfsvíg. Því miður virðist það hafa verið hið síðarnefnda ef marka má orð Skúla miðils því hann segir við mig að kominn sé ungur maður með ljóst hrokkið hár sem honum virðist að tekið hafi líf sitt. Mér dettur Pétur þegar í hug og nefni nafn hans. ‘Jahá, nú brosir hann,’ segir Skúli. Okkur Pétri var ágætlega til vina. Við skrópuðum stundum í latínu hjá Þorbjörgu Kristinsdóttur veturinn 1990 – 1991 og drukkum kaffi og tókum í nefið í kaffistofunni í kjallara Casa Nova.

‘Ég verð var við ungan mann hérna fyrir aftan þig og ég veit ekkert af hverju það er verið að tala um mann sem hefur farið mjög snöggt. Ég fékk svona svolítið högg á mig. Ekki hefur hann gert þetta sjálfur?’ Ég spyr hvort hann heiti Benjamín og Skúli segir mér að við það brosi drengurinn breitt. Þarna er þá kominn Benjamín Árnason vinur minn sem fórst sviplega í fallhlífarslysi í Ástralíu 7. janúar, aðeins tveimur mánuðum áður. ‘Hann kemur hér og er svo ánægður með að mega koma hérna til þín og er að biðja þig um að horfa með björtum augum fram á við vegna þess að það er mjög bjart fram undan.’

Betri lokaorð gæti ég ekki hrist fram úr erminni sjálfur þótt ég sæti næturlangt við tölvuna svo ég stel þeim frá Benna og set punktinn hér.

Athugasemdir

athugasemdir