Hinir gamalreyndu Mezzoforte eru með tónleika hérna úti í Sandnesi í þessum skrifuðu orðum, nánar tiltekið í Sandnes kulturhus. Við vorum að spá í að skella okkur en nenntum svo ekki að leggja á okkur ferðalagið enda veður rysjótt, þrútið loft og þungur sjór. Látið þetta ekki leka í Mezzoforte, Gulli frændi ber þar húðir og gæti honum sárnað. (MYND: Mezzoforte. Úr kynningarpósti Íslendingafélagsins. Mér verður varla legið á hálsi höfundarréttarbrot.)
Ég leit af rælni á heimasíðuna þeirra og komst þá að því að þeir eru í svakalegu tónleikaferðalagi út um allar jarðir til að kynna þrettándu plötu sína, Volcanic. Auk Noregs munu þeir koma við í Þýskalandi, Hvíta-Rússlandi, Slóvakíu og Rússlandi. Mezzoforte-þekking mín er greinilega með afbrigðum léleg, ég gæti ekki nefnt fleiri en hið góðkunna verk þeirra, Garden Party, þótt líf mitt lægi við og hélt þar að auki að þeir væru löngu hættir. Ég verð ekki fenginn til að stjórna Popppunkti, svo mikið er víst.
Við erum nú hægt og rólega að mana okkur upp í að heimsækja eitt af heldri veitingahúsum bæjarins og fá okkur lutefisk, sem ég hef ritað hér um áður, en sú vertíð hófst nú í byrjun október og stendur fram að jólum. Við hlið hins alræmda pinnekjøtt er fiskur þessi vinsæll á borðum Norðmanna um jólin en þó mun það helst vera elsta kynslóðin sem þar heldur uppi merkjunum. Ég nefndi þessar hugleiðingar okkar við nokkra Norðmenn í vinnunni. Urðu þeir þegar hvítir sem náir, tóku mér allan vara á að nálgast lutefisk og væri hans höfundur betur kominn í torfgrafir (sem hann hlýtur að vera, þetta er nánast jafn-fornt fyrirbæri og Noregur sjálfur). Getur verið að þetta sé verra en kæst skata? (MYND: Lutefisk með öllu en hefðbundið meðlæti er heill hellingur af drasli.)
Jeffrey Steingarten, höfundur bókarinnar The Man Who Ate Everything, mun hafa látið þessi orð falla í viðtali við hið hérlenda blað Dagbladet árið 1999 (finnst eingöngu á frummálinu):
Lutefisk is not food, it is a weapon of mass destruction. It is currently the only exception for the man who ate everything. Otherwise, I am fairly liberal, I gladly eat worms and insects, but I draw the line on lutefisk.
What is special with lutefisk?
Lutefisk is the Norwegians’ attempt at conquering the world. When they discovered that Viking raids didn’t give world supremacy, they invented a meal so terrifying, so cruel, that they could scare people to become one’s subordinates. And if I’m not terribly wrong, you will be able to do it as well.
Vituð ér enn eða hvat?