Nú þekki ég ríkisvaldið aftur, bara skella lögum á verkfall flugumferðarstjóra og láta ekki deigan síga. Kristján Lúðvík Möller greinilega í sínu besta formi í kvöldfréttunum, maður sem átti heimsmet í að láta ekki ná í sig þegar ég starfaði sem fréttamaður er núna meira en tilbúinn að láta hvern sem er heyra að hann líður ekki einhverjum flugumferðarstjórum að berjast fyrir lífinu. (MYND: Benito gamli kunni þetta, ekki síður en þeir sem nú ávarpa fólkið. Hroki er líka list.)
Menn eins og Kristján Lúðvík þurfa heldur ekki að berjast mikið fyrir lífinu, þeir hafa atvinnu af því að sjá aðra berjast fyrir því. Hann, Árni Páll og Jóhanna Sigurðardóttir eru eins og hver græðlingurinn af sama meiðinum. ‘Þið gerðuð þetta, þetta er ekki okkur að kenna og nú skulum við láta hjól atvinnulífsins snúast með því að versla í Melabúðinni…’ Hlægilegur grautur sem íslenskum almenningi er ætlað að gleypa ísköldum. Sem hann og gerir.
Gaman er að segja frá því að nú eru boð í atvinnuviðtöl farin að streyma hingað í Mosfellsbæinn frá Noregi. Það liggur við að við munum eiga annríkt við að sinna þeim öllum eftir að við komum út í maí. ‘Íslendingarnir sem kunna að rífa kjaft við fasista- og bankastjórnina’ (eins og hún er víst kölluð í Noregi) virðast eiga upp á pallborðið hjá norskum vinnuveitendum. Þeir eru á höttunum eftir fólki sem lætur ekki bilaðar ríkisstjórnir hirða af sér aleiguna baráttulaust eins og hérna tíðkast.
Það verður einmanalegt um að litast á Íslandi eftir tvö ár eða svo, Steingrímur og Jóhanna ein norpandi um Austurvöll, stjórnmálamenn fólksins…það eina sem vantar er fólkið.