McD’s In Memoriam

mcdsSjaldan er ein báran stök. Hin íslensku útibú stærsta skyndibitaævintýris heimsins, sem þeir bræður Dick og Mac McDonald hófu í San Bernardino í Kaliforníu árið 1940, líða undir lok með þeirri viku sem nú er hafin. Í San Bernardino leit einnig einn af fyrstu Hells Angels-klúbbum heimsins dagsins ljós árið 1953 svo þetta er merkisstaður.

Ég fór auðvitað beint úr ræktinni í dag og nældi mér í minn síðasta Big Mac hér á landi ásamt vænum skammti af þessum frábæru frönsku kartöflum og kokkteilsósunni sem framkvæmdastjóri Lystar ehf. lofar reyndar að muni skila sér áfram yfir í nýja staðinn. Mér hefur alltaf þótt nokkuð til McDonald’s-hamborgara koma, aðallega vegna þess að feitin og drullan lekur ekki af þeim allan tímann sem átið stendur. Það hafa þeir fram yfir hinn dæmigerða íslenska borgara sem oft hefur þó reynst þrautgóður á raunastund á þynnkutímum.

En nú eru krepputímar og Mc hverfur okkur Íslendingum. Það gerði Burger King líka í desember í fyrra og hið gamalgróna Benz-umboð Ræsir, sem ég skipti við í áratug (og fjölskylda mín í tvo), er farið. Maður lætur sem sagt fátt koma sér úr jafnvægi orðið. Ég fléttast McDonald’s þó vægum tilfinningaböndum þar sem við Hilmar Veigar Pétursson, sveitungi minn úr Garðabænum og nú CCP-forstjóri, vorum eiginlega fyrstu starfsmenn McDonald’s sumarið 1993.

Þá tókum við að okkur, eftir ábendingu enskukennara okkar við Fjölbrautaskólann í Garðabæ, að þýða starfsmannahandbók McDonald’s yfir á hina ylhýru tungu okkar Íslendinga og gerðum það nokkuð vel að ég held. Ég man ekki eftir að hafa séð nákvæmari leiðbeiningar með nokkru starfi. Tiltekinn var fjöldi gúrkusneiða sem fara skyldi á hvern hamborgara og hvernig sneiðunum skyldi raðað svo að tryggt væri að viðskiptavinurinn fengi skerf af gúrkunni í hverjum bita af borgaranum. Þá voru leiðbeiningar um meðferð djúpsteikingarfeiti þannig að NASA mætti sennilega dauðskammast sín fyrir verklagsreglur um háttsemi í geimskutlum. Sumt var bara alls ekki hægt að þýða og heimfæra upp á agalausan íslenskan vinnumarkað svo vel færi, til dæmis útreikning á mínútufjölda kaffitíma og annað sem var svo séramerískt að Gylfi og félagar hjá ASÍ hefðu gleymt stöðugleikasáttmálanum í nokkrar mínútur við að lesa þetta.

En við vorum svo sem ekki starfsmenn í skilningi laga heldur verktakar og vorum ekki lítið fúlir að vera ekki boðnir í opnunarteitina þar sem ekki minni maður en hrokkinhærður forsætisráðherra læsti tönnum sínum í fyrsta íslenska Big Mac-borgarann. Það hefðum átt að vera við!

Þetta var þó hressandi aukavinna. Þetta sumar, 1993, óð ég steypu upp fyrir haus í byggingarframkvæmdum hjá Ístak hf. á daginn og þýddi starfsmannahandbók McDonald’s á kvöldin. Ólík störf en bæði gefandi.

Ég óska forsvarsmönnum Lystar hf. velfarnaðar með nýja hamborgarastaðinn þar sem íslenskt hráefni verður í hávegum haft og þakka fyrir 16 ár af Big Mac og ágætu meðlæti.

Athugasemdir

athugasemdir