Margt sýsla menn

PassiSýslumenn Íslands eru merkilegar stofnanir og einstaklingar sem byggja á fornum stjórnsýslugrunni landsins. Nú vilja þeir allir fara að sameinast hver öðrum sem væntanlega sparar peninga og vesen og jafnvel tíma. Svona lagað getur þó komið upp á óheppilegum tíma líkt og margt annað. (MYND: Aprílgabb þessa árs um norska vegabréfið sem einhverjir kolféllu fyrir á Facebook.)

Nú ber svo við að vegabréfin okkar frá 2010 ljúka gildistíma sínum í apríl. Til að krydda þessa uppákomu enn fremur hefur það fyrirkomulag nú verið afnumið að ræðismenn Íslands í kaupstöðum Noregs geti annast útgáfu næsta vegabréfs. Eina leiðin fyrir Íslendinga til að endurnýja íslenskt vegabréf í Noregi er að fara til Óslóar á virkum degi og mæta þar í sendiráð Íslands milli klukkan 10 og 15. Eðlilega útheimtir þetta flugferð fram og til baka og einn dag frá vinnu.

Var því ákveðið að fara í það verkefni eina virka daginn í áramótaheimsókninni til Íslands, föstudaginn 2. janúar, að heimsækja sýslumanninn í Kópavogi, greiða þar tugi þúsunda fyrir flýtimeðferð á vegabréfsendurnýjun og freista þess að fá ný vegabréf síðdegis sama dag sem starfsmenn sýslumanns töldu vel mögulegt í svari við fyrirspurn frá mér. Svo gerist það að öll sýslumannsembætti höfuðborgarsvæðisins ganga í eina sæng 1. janúar 2015 og embættin á Suðurnesjum fara að dæmi þeirra og verða sýslumaðurinn á Suðurnesjum. Barst mér tölvupóstur í dag frá embætti sýslumannsins í Kópavogi um að þar með yrðu öll embættin lokuð téðan föstudag samkvæmt ákvörðun síðan í gær.

Þetta hlaut náttúrulega að gerast þegar ég þarf að endurnýja vegabréf í þriðja sinn á ævinni. Nú stend ég frammi fyrir því hvort ekki sé hvort tveggja minna vesen og ódýrara að drífa sig bara í norska ríkisborgararéttinn tveimur árum á undan áætlun. Umsókn um hann kostar 3.500 NOK sé maður ekki búinn að ná upp í sjö ára regluna sem mig vantar tvö ár í, þá borgar maður ekki neitt. Undanþága frá 300 tíma norskunámskeiði fæst ef maður talar norsku svo það sleppur fyrir horn og málið má afgreiða gegnum lögreglustjórann í Stavanger svo ferðalag til Óslóar á skrifstofutíma sparast.

Sá böggull fylgir þó gamla skammrifinu (er skammrif matur eða hvur andskotinn er þetta??) að umsóknarleiðin tekur allt að tólf mánuði á meðan ferlið gegnum sjö ára regluna tekur bara átta vikur. Því er hætt við að umsækjandinn standi uppi vegabréfslaus í fleiri mánuði sem þar að auki ná yfir sumarfrí þessa árs og væri náttúrulega glapræði. Til að auðvelda mér ákvarðanatöku í þessu snúna máli hef ég sent norska utanríkisráðuneytinu erindi og spurt menn þar hvort þeir ætlist virkilega til að ég fari til Óslóar á skrifstofutíma til að ná mér í vegabréf af því að þeir þurfa ár til að útvega borgara annars Norðurlands ríkisborgararétt.

Fyrr má nú vera skriffinnskan…

 

 

Athugasemdir

athugasemdir