Mánudagur til…margslunginna athafna

kaffiNý vinnuvika hófst með krafti. Kannski fullmiklum krafti fyrir mánudag reyndar þar sem við erum að taka lyftarapróf í kvöldskóla og verða fyrstu þrír dagar vikunnar þar með töluvert langir. Við vorum að lenda heima núna klukkan 22:30. Þetta er bóklegi hlutinn en sá verklegi er svo kenndur á tveimur heilum dögum, fimmtudag og föstudag. (MYND: Dagurinn í dag slagaði hátt í þrjár könnur ef ég tel alveg frá 06:45 í morgun.)

Það er greinilega sama hvar maður er í heiminum, svona námskeið inniheldur alltaf einn fastan lið sem maður getur stólað á, leikna mynd frá ca. 1982 um öryggisatriði eða eitthvað álíka. Ég hef sjaldan séð formúluna jafngranítharða og í mynd dagsins. Snjóþvegnar gallabuxur, sítt að aftan og dramatísk B-myndatónlist á meðan hörmuleg lyftaraslys voru sett á svið á hörmulegan hátt. Nánast alltaf var sama varan á öllum brettum, Johnny Walker-viskí í kassavís. Viss frumleiki reyndar.

Ég þarf að hafa tíu tonna lyftaraprófið upp á vasann fyrir nýju vinnuna og við ákváðum bara að skella okkur bæði. Það getur varla skemmt. Nú bíður bara próf á miðvikudagskvöldið og hörkulestur, tæplega 200 blaðsíðna bók. Eins og varla kemur á óvart hér í Noregi er HMS-vaðall (helse, miljø, sikkerhet) töluverður hluti af námsefninu. Ég skrifaði í pistli einhvern tímann að Norðmenn væru löngu búnir að missa sjónar á því sem þeir eru í raun að gera í vinnunni fyrir allri vinnuverndinni. Landið er eitt stórt vinnueftirlit.

Ljóst er að Shell er nýi óþekktarormurinn í umhverfisspjöllum á eftir óhappi BP í Mexíkóflóa. Þeir höfðingjar voru að missa lítil 216 tonn af olíu í Norðursjóinn út af Skotlandi eftir að rör á hafsbotni sprakk á miðvikudaginn. Talan virðist svakaleg en norskir fjölmiðlar gera þó ekki ýkjamikið úr henni og benda á að þetta séu ‘einungis’ 1.300 föt af olíu í samanburði við tæplega fimm milljónir sem fóru í sjóinn þegar Macondo-brunnur BP skaddaðist í borpallssprengingu í apríl í fyrra. Ég ætla því að reyna að sofa rólegur í nótt enda sit ég hérna með koffeinlausa neskaffið mitt í slökun eftir langan mánudag.

Monday Monday, so good to be, eins og The Mamas and The Papas sungu hástöfum á sínum tíma. Mæli með að lesendur hlusti á þetta stórvirki hér.

Eins og ég óttaðist er ég strax að verða Twitter-fíkill. Nú er ég til dæmis farinn að fylgja Jens Stoltenberg forsætisráðherra á Twitter. Hvað ætli hann segi við því?

Athugasemdir

athugasemdir