Málefni útlendinga og Þórir Jökull

utlendingarGríðarlegt átak í málefnum útlendinga sem búa og starfa ólöglega í Noregi stendur nú yfir hjá norskum yfirvöldum en málið er hið vandræðalegasta þar sem skatturinn gaf fyrir mistök út skattkort til mörg þúsund manns ár eftir ár (hér fær maður nýtt skattkort í janúar ár hvert) þrátt fyrir að dvalar- og/eða atvinnuleyfi væru ekki fyrir hendi hjá þessum hópi. Fólkið hafði fengið þessi leyfi tímabundið en haldið áfram að fá send skattkort eftir að leyfin runnu út. Þrennt af mínu starfsfólki er í þessari stöðu. Það hefur nú látið af störfum að skipan útlendingaeftirlitsins og á yfir höfði sér brottvísun úr landi á næstu dögum eða vikum. Einn var handtekinn í vinnunni og færður á lögreglustöð. (MYND: Útlendingar – myndin tengist þó ekki pistlinum!)

Fyrir vikið var nýliðin vinnuvika hreint helvíti á jörðu. Ég var töluvert á moppunni sjálfur milli þess sem ég útskýrði fyrir misskilningsríkum deildarstjórum (sem sagt mismunandi skilningsríkum, ekki ríkum af misskilningi (jafnvel misdauðum, sbr. Erfðarétt Ármanns Snævarr, þessi var bara fyrir þig Hrafnkell!)) ýmist að alls ekki yrði þrifið á deildinni þeirra eða að eingöngu það lífsnauðsynlegasta yrði gert sem er yfirleitt klósettþrif og sorptæming.

Það er hálfömurlegt að þessi þrjú sem fóru voru rjóminn af mínu starfsfólki, öll með töluverðan starfsaldur og kunnu á margar deildir sem er gulls ígildi í bransanum. Hefði ég fengið að velja hefði ég nefnilega kosið ýmsa aðra og reyndar á ég minn eigin persónulega og mjög leynilega óskalista yfir fólk sem ég hefði ekkert á móti því að losna við. Þetta er annað atriðið sem verður ljóstrað upp um í bókinni Í skugga moppunnar (n. I moppens skygge) sem ég mun skrifa á eftirlaunaárunum. Fyrsta atriðið var notkun veikindafjarvista í Noregi sem ég nefndi í pistli hér um daginn.

Til að vinna gegn þessari óþróun hef ég strax ráðið tvo nýja starfsmenn sem eru komnir á kaf í starfsþjálfun. Ég geri ráð fyrir að bæta við einum í viðbót og þá nálgast ég að vera á sléttu. Lengri tíma tekur þó að vinna upp þá starfsreynslu sem tapaðist með þremenningunum og mér finnst þetta ægilegt. En sånn er livet eins og þeir Norðmenn segja.

Eins hefur verið nóg að gera í aukavinnunni en þessi vika var langa vikan mín í henni, það er að segja fjögur kvöld. Ég er því hálfdauður þegar þetta er skrifað en kominn í langþráð eins dags helgarfrí. Ég hef aldrei hlakkað sérstaklega til páskanna, ekki einu sinni þegar ég var barn, en nú eru þeir mér sem vin í eyðimörk djöfulsins…fríið sem fylgir þeim það er að segja. Um páskana í fyrra var ég að verða geðveikur yfir MA-ritgerðinni minni þannig að ég hef ekki upplifað almennilega páska síðan 2009 og ég man ekkert eftir þeim sökum ölvunar. Man samt að það var gott veður þá eins og alltaf þegar ég drekk brennivín.

Ásgeir Elíasson og Jóna Dís Þórisdóttir stórvinir mínir giftu sig á Íslandi í dag og skírðu afkvæmi sitt sem hlaut nafnið Þórir Jökull. Ég ræddi við Ásgeir í síma í kvöld og hrósaði honum mjög fyrir að hafa valið nafn þessa fræga skálds og hetju úr Örlygsstaðabardaga, Þóris Jökuls Steinfinnssonar (d. 1238) á son sinn. Kom þá í ljós að Ásgeir hafði aldrei heyrt á hann minnst en skírði barnið eftir afa þess (Þóri) og presti nokkrum í Ólafsvík (sr. Þóri Jökli). Nafnið er engu að síður gott og sterkt íslenskt nafn þótt sjálfur hefði ég valið nafnið Órækja á mitt afkvæmi. Smekkurinn er misjafn. Þessa frægu lausavísu orti Þórir Jökull Steinfinnsson rétt fyrir andlát sitt og þekkja margir:

Upp skalt á kjöl klífa,
köld es sjávar drífa,
kostaðu hug þinn herða,
hér muntu lífit verða.
Skafl beygjattu, skalli,
þótt skúr á þik falli,
ást hafðir þú meyja.
Eitt sinn skal hverr deyja. (SturII 352 [GJ])

Athugasemdir

athugasemdir