MA í norsku!

utskriftJæja, kannski ekki alveg en í gær lukum við formlega námskeiðinu Norska 1 hjá Mími. Við lærðum hvorki bölv né ragn á þessu námskeiði, sem er þó yfirleitt það fyrsta sem manni lærist í erlendum málum, en engu að síður var námskeiðið býsna lærdómsríkt og Sigurður Pétursson dýralæknir, sem kenndi, stóð sig eins og hetja. Við getum óhikað mælt með starfinu hjá Mími sem er vel skipulagt og námskeiðin hóflega verðlögð. Þá er kennslan til fyrirmyndar og ekki skemmdi að við lentum í mjög skemmtilegum hópi í Norsku 1. (MYND: Skírteinin á kantinum, ég tók myndina sjálfur og biðst velvirðingar á litlum gæðum hennar.)

Við erum þó langt í frá altalandi þótt við getum talað um veðrið, bankaviðskipti og ferðalög en nú bíður okkar framhaldsnámskeiðið Norska 2 sem hefst 16. mars. Ætlunin er að sjálfsögðu að liggja í Samlede romaner og fortællinger-safni Knut Hamsun, hins norska Laxness, og mæta í framhaldið með 19. aldar gullaldarnorskuna á beinu. Nú verður ekkert gefið eftir.

Annars er þetta bráðskemmtilegt tungumál eins og ég gat um í pistli hér um daginn og fátt hefur bjargað okkur meira við að ‘afdanska’ framburð okkar en hinir ágætu þættir Himmelblå sem Ríkisútvarpið sýndi þar til seríunni lauk fyrir hálfum mánuði. Mikil upplifun var að kynnast þar rokkgoðinu Halvdan Sivertsen sem virðist vera eins konar Herbert Guðmundsson þeirra Norðmanna og við héldum ekki vatni yfir. Stefnan sett á tónleika um leið og við komum út.

Athugasemdir

athugasemdir