Lønningspils og útflutningsteiti á föstudag

lonningspils 2012Við héldum síðustu teitina hér á Overlege Cappelensgate föstudaginn 13. apríl og fórnuðum fyrir hana Haddaway og Scooter-tónleikunum í Sørmarka Arena sem hefðu þó væntanlega verið þess virði að heimsækja. Maður þarf bara að velja og hafna. (MYND: Íslenska brennivínið komið í staupin. Myndin er tekin á iPhone, nú hafa hvít augu leyst gömlu rauðu augun af hólmi. Þar með virkar ‘Red Eye Removal’ í Picture Manager ekki.)

Gleðskapurinn var haldinn fyrir vinnufélaga mína hjá NorSea og auglýstur þar sem lønningspils og utflyttingsfest. Lønningspils (ísl. launabjór) er fyrirbæri sem ætti að vera meira tíðkað á íslenskum vinnustöðum. Þar er sem sagt um að ræða fyllerí sem, eins og nafnið gefur til kynna, fer fram við launaútborgun. Koma vinnufélagar þá saman á öldurhúsi fljótlega að loknum vinnudegi og gusa í sig brennivíni. Við gerðum þetta til dæmis í desember.

Mig hafði hins vegar alltaf dreymt um lønningspils í heimahúsi, hvort tveggja finnst mér það persónulegra auk þess sem það býður upp á ódýrara áfengi. Þetta féll vel í kramið og var ágætlega mætt. Ég notaði tækifærið til landkynningar og bauð upp á íslenskt brennivín og Tópas skot en hvort tveggja höfðu góðir menn gripið með sér handa mér í fríhöfninni í Keflavík með litlum fyrirvara (Steingrímur Ólafsson og Elías Kristján Elíasson, bestu þakkir).

Þetta féll býsna vel í kramið og voru Norðmenn sem steini lostnir yfir því að fleiri en ein tegund áfengis væri framleidd á sögueyjunni, hvað þá að Íslendingar væru svo hugmyndaríkir að vera farnir að búa til skotdrykki úr gamalgrónu nammi. Tópasinn hvarf sem dögg fyrir sólu og beini ég því hér með til forsvarsmanna Ölgerðar Egils Skallagrímssonar að hefja þegar markaðssetningu á tegundinni hér í Noregi.

Þetta var síðasta heimapartýið okkar í langan tíma. Íbúðin í Gangaren, sem við flytjum í um mánaðamótin, er ekki eins þægileg með tilliti til fjölmennra drykkja, nágrannar uppi og niðri og hljóðbært í húsinu. Þetta er mun skárra hér í raðhúsinu á Overlege, nágranninn hægra megin nánast dauður og heyrir ekki bofs og sá vinstra megin eiginlega meira partýljón en við en með mun verri tónlistarsmekk.

Núna erum við byrjuð að pakka búslóðinni ofan í kassa og raunveruleiki flutninganna hægt og bítandi að ná tökum á okkur. Eftir um það bil mánuð verður þessu ferli að fullu lokið, að meðtaldri niðurröðun á nýja staðnum. Þá verður nú ástæða til að draga tappa úr flösku.

Athugasemdir

athugasemdir