Loksins loksins!

rammsteinNú halda lesendur að ég ætli að rita hér nokkur vel valin orð um frægan ritdóm Kristjáns Albertssonar um Vefarann mikla eftir meistara Laxness sem birtist í tímaritinu Vöku árið 1927 og hófst á orðunum:Loksins, loksins tilkomumikið skáldverk, sem rís eins og hamraborg upp úr flatneskju íslenzkrar ljóða- og sagnagerðar síðustu ára!(MYND: Snillingarnir í Rammstein.)

Það ætla ég ekki að gera þótt ég dái Laxness öðrum rithöfundum fremur. Hins vegar ætla ég að heimfæra þessi orð, loksins loksins, upp á nýtt og stórglæsilegt myndband þýsku snillinganna í Rammstein sem hafa nú ruðst fram á sjónarsviðið með laginu Pussy, fyrirboða nýrrar plötu sem væntanleg er í október og ég ætla ekki að vera meira en fimm mínútur að krækja mér í. Þar verður væntanlega ekki á ferðinni neitt vélstrokkað tilberasmjör eins og Guðmundur Finnbogason, landsbókavörður og sálfræðingur, nefndi Vefarann í sínum skrifum. Landsbókaverðir eru greinilega ekki smekkmenn.

Teprur og pempíur hafa gagnrýnt myndbandið og kallað það klám og ósóma en að mínu viti er þetta hreint listaverk snúið þéttum en fögrum tónum þessarar þýsku ofursveitar sem stofnuð var í Berlín árið 1994 af sex fyrrum Austur-Þjóðverjum. Till Lindemann er allur að koma til í enskunni og syngur hluta textans í Pussy á þeirri tungu. Áður hafði hann æft sig í laginu Amerika af plötunni Reise Reise og náð þar að koma út úr sér setningunniWe’re all living in America,

nokkuð óbrenglaðri.

Þegar sexmenningarnir héldu hér á landi tvenna dúndrandi tónleika í júní árið 2001 tókst Lindemann að segjaRammstein loves Iceland,en Austur-Þjóðverjar hafa aldrei verið sérstaklega slyngir í ensku. Ég var að vinna á Mogganum á þessum tíma og naut þá einmitt þess heiðurs að hitta bassaleikarann Oliver Riedel sem var eini maðurinn í sveitinni sem talaði þokkalega ensku.

Vefsetrið atlisteinn.is lýsir hér með yfir ánægju með hið nýja myndband sem sjá má hér og telur að einkum beri að lofa frammistöðu hins stórfurðulega hljómborðsleikara ChrisitanFlakeLorenz sem átti algjöran stórleik í Laugardalshöllinni sumarið 2001.

Lifi Rammstein, þessir piltar kunna sitt fag!

Athugasemdir

athugasemdir