Loksins föstudagur

heima  matFyrirsögnin er stolin af ágætu bloggi Arnar Markússonar tölvunarfræðings í Bergen en ég geri hans yfirskrift að minni í dag. Full ástæða er til, hér er risinn úr sæ einhver mesti blíðviðrisdagur sumarsins og hitastig að nálgast mörk hins óþægilega strax vel fyrir hádegi. Það stefnir sem sagt í löng og góð sólböð í dag og klárt að hér er skólabókardæmi um skyldu-hvítvínsdag. Alltaf fórnar maður sér. (MYND: Heima í mat og sólbaði í dag. Rósa spænir í sig kornflex.)

Ég hélt minn síðasta starfsmannafund á sjúkrahúsinu í gær og tilkynnti mínu fólki um starfslok mín 31. ágúst. Tíðindin voru greinilega aðeins búin að leka út en komu flatt upp á flesta og mátti heyra andköf. Næsta sprengja var þegar ég tilkynnti hver yrði eftirmaður minn í starfi og fannst einhver ummyndun á andrúmslofti í herberginu þegar ég nefndi það. Ég ískraði innbyrðis af kátínu, ekki það að mér sé illa við starfsfólkið mitt en þetta kitlaði stríðniseðlið svona létt. Ég get augljóslega lítið tjáð mig um þetta hér vegna alls konar félagslegra taumhaldsreglna en við getum sagt að eftirmanneskja mín sé ekki alveg eins frjálslynd og ég. Einhverjir munu svitna aðeins meira í vinnunni frá 1. september að telja. Fólk hefur gott af því.

Ég var í stuttu spjalli við Frey og Erlu í morgunútvarpi Rásar 2 í gær. Þau vildu heyra aðeins um andrúmsloftið í Noregi eftir atburðina í júlí og komandi sveitarstjórnarkosningar. Huggulegt að heyra í Efstaleitisfólki eins og alltaf. Rabb okkar má heyra hér.

Það er farið að teygjast úr þessum matartíma hjá mér svo ég ætla að rölta aftur í vinnuna. Þetta er næstsíðasti föstudagurinn minn á sjúkrahúsinu þar sem næsta föstudag verð ég allan daginn að taka verklega hlutann af lyftaraprófi að tíu tonnum. Ég óska lesendum góðrar helgar og vona að veðrið á Íslandi sé eins gott og hér.

Athugasemdir

athugasemdir