Loðin svör um landflótta

gamaskipForsætisráðherra átti fá svör við fyrirspurn stjórnarandstöðunnar um hvernig ríkisstjórnin hyggist snúa þeirri þróun við að fólk streymi frá landinu, tæplega 11.000 manns í fyrra (segir RÚV, Stöð 2 nefnir 9.000 Pólverja og rúmlega 4.000 Íslendinga) og hver verður talan þegar upp verður staðið eftir árið 2010? Ég veðja á að hún verði töluvert hærri. (MYND: Drekkhlaðin gámaskip einhvers staðar bíða þess að láta í haf, ef til vill með nokkrar búslóðir innanborðs)

Það er vinsæl mantra hjá Jóhönnu Sigurðardóttur og Gylfa viðskiptaráðherra að vissulega sé hitt og þetta áhyggjuefni. Lengra nær það svo yfirleitt ekki. Reyndar man ég varla eftir Gylfa Magnússyni öðruvísi í viðtölum undanfarið en svo, að hann sé að tjá sig um hvað hann hafi miklar áhyggjur af stöðu hinna og þessara mála. Vesalings maðurinn, þetta getur varla talist öfundsvert hlutskipti. Hann líkir Alþingi við MORFÍS og segir karpið þar snúast um ekki neitt. Ég keppti í MORFÍS í gamla daga og man ekki eftir þeirri ágætu keppni öðruvísi en að þar hafi verið rætt af sanngirni og festu um ákveðin umræðuefni. Ég er sammála Gylfa um að á þingi sé karpað um ekki neitt en finnst það móðgun við MORFÍS að bera þetta tvennt saman.

Bjarni Benediktsson fór mikinn í pontu í dag og sagði að nú færi ‘atvinnuleysisskrímslið að rísa úr sjó.’ Ekki veit ég hvar Bjarni hefur alið manninn undanfarið en honum má benda á að á landinu er tæplega tíu prósenta atvinnuleysi og umrætt skrímsli því sennilega komið vel upp úr sjónum og gott betur.

Það var aldrei ætlunin að atlisteinn.is yrði að einhverri pólitískri skotgröf svo ég ætla að hætta þessu tuði en það er í besta falli fyndið að horfa upp á 60 manns hnakkrífast við Austurvöll dag eftir dag á meðan landið sekkur dýpra og dýpra. Ríkisstjórnin svarar öllum fyrirspurnum með því að hún sé á kafi í róttækum aðgerðum við að koma landi og þjóð til bjargar. Það er ósköp einfaldlega bull, algjört bull. Mér persónulega er hins vegar orðið slétt sama um hvað stjórnin telur sig vera að gera. Ég held að ég hafi kosið í mínum síðustu alþingiskosningum hér á landi…nema Jón Gnarr tefli Besta flokknum fram til þings, þá set ég X-ið við hann. Ekki spurning.

Athugasemdir

athugasemdir