Litið til baka

mkata2007.jpgNei, hér er ekki ætlunin að fjalla um ágæta metsöluplötu Gylfa Ægissonar sem samnefnist fyrirsögninni heldur langar mig að minnast þess að í dag, 7. september, er upp á mínútu áratugur síðan ég hóf að æfa shotokan karate hjá Karatefélaginu Þórshamri þar sem ég síðar átti eftir að sitja í stjórn í sex ár, þar af sem formaður félagsins í tvö og hálft. (MYND: Rétt mörðum 3. sætið í hópkata á ÍM í kata 2007 réttri viku eftir svartbeltisgráðun hjá okkur Magnúsi. F.v.: Ég, Birkir Jónsson (a.k.a. Drunken Master) og Magnús Blöndal.)

Ég gleymi seint þessu fimmtudagskvöldi, 7. september 2000, þegar ég mætti á fyrstu æfinguna í byrjendaflokki fullorðinna hjá Daníel Pétri Axelssyni, þá nýbökuðum 1. dan og að auki náfrænda Skúla Óskarssonar kraftlyftingamanns, stálmúsarinnar svokölluðu. Þetta var ekki gaman. Í fyrsta lagi hafði ég hætt að reykja í maí, eftir áratug við þá iðju, og auk þess hafði ég eingöngu verið að lyfta síðan ég var í júdóinu hjá Ármanni fimm árum áður og því ekki stundað teygjur af neinu viti. Hvort tveggja kom sem steikarpanna í hnakkann á mér þetta haustkvöld fyrir tíu árum.
tonsberg.jpg
Upp úr fyrstu vikunum tók maður þó að braggast og hægt og bítandi gerði áður óþekktur liðleiki vart við sig sem náði hámarki í því þegar ég komst í splitt sumarið 2003. Aldrei bjóst ég við að lifa það og er reyndar búinn að týna þeim hæfileika niður núna. Guð gaf og guð tók eins og þar segir. (MYND: Fyrsti sopinn af Captain Morgan eftir brúnbeltisgráðun í Tønsberg í Noregi. Einn af mörgum marblettum eftir gráðunina sést á hendinni sem heldur á glasinu.)

Árin hjá Þórshamri voru býsna skemmtilegur tími og vel tekið á því í umsjá góðra þjálfara auk erlendra gestaþjálfara sem reglulega heimsóttu félagið. Þá er minnisstæð ferð til Tønsberg hér í Noregi í júní 2004 þar sem mörg hundruð iðkendur komu saman á vikulöngum æfingabúðum með fimm heimsþekktum þjálfurum, þar á meðal sensei Ochi, 8. dan. Ochi er örsmár síbrosandi Japani en æfingarnar hjá honum eins og seigfljótandi brennisteinssýra. Lærdómsríkar samt.
kawasoe2001
Af þeim 42 sem hófu æfingar í téðum byrjendaflokki fullorðinna í september 2000 vorum við þrjú sem tókum svart belti 1. dan. Það hlutfall er nálægt meðaltalinu fyrir flestar sjálfsvarnaríþróttir. Í mínu tilfelli tók það sex ár, sex mánuði, þrjár vikur og þrjá daga og það er alveg klárt að Captain Morgan hefur aldrei bragðast eins vel og að kvöldi þess dásemdardags, 31. mars 2007. (MYND: Á æfingabúðum í Þórshamri í apríl 2001. Byrjendahópurinn búinn að afplána einn vetur og kominn niður í 20 manns úr rúmlega 40. Ég er sjöundi frá fjarenda og við hlið mér hinn rauðhærði Birkir Björnsson.)

Ég get rifjað þennan skemmtilega tíma endalaust upp og sagt frá ýmsum atvikum. Einna minnisstæðast er þegar ég braut sama rifbeinið í Bergsteini Ísleifssyni félaga mínum tvær gráðanir í röð, auðvitað fyrir hreina slysni, og þegar ég fór úr lið á löngutöng hægri handar á Íslandsmótinu í kumite í nóvember 2004 og horfði á fingurinn með 90 gráða vinkil í öfuga átt sem var mjög sérstök sjón. Því miður gleymdist að taka mynd áður en mótslæknirinn kippti í liðinn.
gradun.jpg

Eins er við hæfi að nefna hér nokkra þeirra einstöku þjálfara sem Þórshamar hefur haft á að skipa undanfarin ár og áratugi en nú eru margir horfnir á braut. Þeir sem næst standa mínu hjarta (og hafa valdið mér hvað mestum þjáningum og lærdómi) eru: Ásmundur Ísak Jónsson, Birkir Jónsson (a.k.a. Drunken Master), Daníel Pétur Axelsson, Bjarni Örn Kærnested, Helgi Jóhannesson, Edda Lúvísa Blöndal, Jón Ingi Þorvaldsson og Árni Þór Jónsson. (MYND: Sensei Masao Kawasoe veitir mér svart belti 1. dan í mars 2007 eftir 12 æfingar á viku í töluvert langan tíma. Enda var gott að skála að kvöldi, ha ha!)

Ævarandi virðingu mína fyrir botnlausa elju í þágu karateíþróttarinnar eiga svo Indriði Jónsson, formaður karatedeildar Breiðabliks, og Reinharð Reinharðsson, formaður Karatesambands Íslands og þjálfari hjá Karatefélagi Reykjavíkur. Reinharð er einnig tengdafaðir bróður míns svo ég er auðvitað ekki hlutlaus. Þetta vissum við Reinharð ekki fyrr en eftir nokkur ár og vorum hinir vandræðalegustu.

Athugasemdir

athugasemdir