Lítið skref fyrir mannkynið, en…

raektMér er illt í öllu! Ég er að drepast í rassinum eftir að hafa hjólað einhverja 20 kílómetra í dag og ég er í tætlum eftir fyrsta skiptið í ræktinni síðan í mars. Loksins tókst að brjóta ísinn og hefja hryllilega þrautagöngu endurhæfingar og lýsisbrennslu sem mun einkennast af gráti og gnístran tanna að minnsta kosti fyrstu átta vikurnar, hugsanlega mun lengur. Hálfnað verk þá hafið er segja menn! (MYND: Æfingafatnaðurinn er ekki úr Stórum stelpum við Hverfisgötu en gæti auðveldlega verið það. Hæglega mætti ruglast á mér og verðandi mæðrum eftir ólifnað síðustu þriggja mánaða og verður reynt eftir mætti að draga úr umhverfisáhrifunum með hólkvíðum fatnaði á æfingum. Vonandi slepp ég við fæðingarþunglyndi samt.)

Við sóttum sem sagt hjólin í dag með fulla vasa af norskum 200 króna seðlum fyrst posinn í Trones Sykkel a/s vildi ekki Visa-kortið í gær. Þetta er allt annað líf og ljóst að mikill samdráttur verður í strætisvagnasamgöngum hjá okkur. Við byrjuðum á að hjóla inn í Sandnes og skoða miðbæinn þar og fleira. Sandnes er hörkuflottur bær við Gandsfjorden sem gengur inn úr Boknafjorden en það er stóri fjörðurinn sem Stafangur og fleiri bæjarfélög liggja að. Kringum Sandnes er tilkomumikið fjalllendi og eru heilu hverfin byggð langt upp í hlíðarnar sem er nokkuð mögnuð sjón.
hjol
En þar sem þetta eru ekki Stiklur Ómars Ragnarssonar ætla ég að láta af náttúrulýsingum og koma aftur að rassinum á mér. Ég man ekki hvenær ég átti síðast reiðhjól en það var 10 gíra DBS sem hefur sennilega verið selt eða hent um það leyti sem ég tók bílpróf árið 1991 (gæti flett því upp þegar dagbækurnar mínar koma, þær eru í gámnum). Þá þarf varla stærðfræðing til að draga þá ályktun að ég hafi átt takmarkað samneyti við sætisbúnað slíkra farartækja í 19 ár. Endurnýjun þeirra kynna var harkaleg og óvægin og það er með harmkvælum sem ég sit og skrifa þennan pistil. Að auki skein sól í heiði eins og hún hefur gert hér nánast upp á dag síðan við komum og þá nægir mjög takmörkuð líkamleg áreynsla til að svellkaldur djöfull ofan af Íslandi svitni eins og hóra í kirkju. Og það gerði ég! (MYND: Dauður í rassinum en brosi gegnum tárin, sólgleraugun björguðu. Í baksýn er sá hluti Sandness sem liggur næst Stafangri.)

Þetta var þó stórskemmtilegt þrátt fyrir svita og botneymsli og góð leið til að læra að rata hérna. Maður er svona farinn að átta sig á hvar flest bæjarfélög umhverfis Stafangur liggja og hvernig hverfaskipan er í borginni sjálfri. Þó er langt í land en svæðið í heild er nokkru stærra en íslenska höfuðborgarsvæðið (sem sumir vilja kalla Stór-Reykjavíkursvæðið þótt ekkert sveitarfélag þar heiti Stór-Reykjavík).

Svo var nú komið að helsta verkefni dagsins einhvern tímann milli sjö og átta í kvöld – lóðunum. S.A.T.S. heitir stærsta líkamsræktarkeðja Noregs (segja þeir á heimasíðunni sinni alla vega) og í Stafangri og nágrenni eru þrjú útibú. Silfuráskrift veitir aðgang að þeim öllum en gulláskrift að öllum stöðvunum í landinu. Silfrið dugir okkur. Þetta reyndist vera fín stöð, snyrtileg og vel innréttuð, tækjakostur meira en nægilegur, að minnsta kosti fyrir minn æfingastíl. Vá, þetta var vont eftir alla letina! Ég beit á jaxlinn og bölvaði í hljóði eins og Bólu-Hjálmar í ljóði Davíðs Stefánssonar og reif í stálið eftir langan aðskilnað.
raektii
Það þarf svo sem ekkert að hafa frekari orð um þetta. Ég hafði það af að þurrka mér sjálfur og rétt tókst að klæða mig á eftir. Guðs mildi að komið var að lokun og ég hafði búningsklefann fyrir mig þar sem ég dróst stynjandi um og bölvaði sjálfum mér fyrir leti síðustu mánaða. Skuldadagarnir koma alltaf að lokum og vextirnir á yfirdráttarheimild skrokksins eru langt umfram hæstu lögleyfða dráttarvexti á Íslandi. (MYND: S.A.T.S. er ágæt líkamsrækt, sakna samt litlu handklæðanna hjá Bjössa í Klassanum, hér eru bréfþurrkuhaldarar á veggjunum og maður er alltaf í þeim!)
raektiii
Þetta er þó alla vega komið í farveg og nú verður mætt að minnsta kosti alla virka daga…nema á föstudaginn. Þá kemur gámurinn hingað frá Fredrikstad, sennilega eldsnemma morguns, og engum blöðum um það að fletta að líkamsræktin þann dag verður háð með 130 bókakössum, sófasetti, bókaskápum og hátt í tonni af hansahillum…ásamt öllu hinu! Ég get sjálfum mér um kennt eftir að hafa grátbeðið Eimskip að ná þessu fyrir hvítasunnu. Bíllinn sem ekur þessu hingað frá Fredrikstad leggur af stað á fimmtudagskvöld og keyrir alla nóttina. Ég veit ekkert hvað þetta er langt í akstri en samkvæmt kortavef Google virðist bein loftlína vera nálægt 500 kílómetrum, akstur þá eitthvað lengri. (MYND: Starfsfólkið kannaðist ekki við að banki hefði áður verið til húsa í ræktinni, kannski er tveggja tonna stálhurð á sturtuklefa eitthvert sérnorskt fyrirbæri.)

NRK er að sýna hrollvekjuna Motorsagmassakren 2, hér er mikill metnaður í að þýða heiti bíómynda eins og er svo sem á Íslandi líka. Norðmenn eru þó lausir við þá geðröskun að tala inn á myndir eins og Þjóðverjar, Frakkar og fleiri og láta norskan texta duga.

Athugasemdir

athugasemdir