Lítið stórafmæli – litrík klæði

AfmaeliskakaDagurinn í dag markar tímamót hjá ritstjórn atlisteinn.is þar sem vefsetrið fagnar nú fimm ára afmæli sínu. Hálfur áratugur er liðinn frá sjósetningu þessa fjölmiðlarisa sem birtist heimsbyggðinni upphaflega 1. febrúar 2009. Eins og þetta séu ekki nógu stór tíðindi ein og sér hefur atlisteinn.is farið í sparifötin og tekið sér nýtt útlit eins og mjög glöggir lesendur sjá kannski votta fyrir (sést best á forsíðu). Að ráðum Ríkharðs Brynjólfssonar tæknistjóra og veldis hans, Tactica, hefur ritstjórnin fært sig yfir í vefumsjónarkerfið WordPress og snúið baki við hinu gamalgróna Joomla sem hér hefur verið í notkun frá upphafi.

Fyrir mig er þetta auðvitað sambærilegt áfall og ef ég fengi mér díselbíl eða kysi Samfylkinguna í næstu kosningum en dómur Ríkharðs var einfaldur: „Þú hefur eiginlega ekkert val kallinn minn, [Joomla] er ekki beint draumur hýsingaraðilans. Stöðugar árásir og lélegar varnir.“ Þessi ummæli falla undir tæknifasisma, atvinnumenn fá sitt fram í skjóli vankunnáttu leikmanna. Yfirleitt er það eitthvað sem venjulegt fólk verður að lifa með svo ég missi ekki frekari svefn yfir málinu og verð sérfræðingur í WordPress með rísandi sól. Joomla var samt svo heimilislegt…

Fyrir hinn almenna lesanda er þessi kúvending sálar minnar á lýðnetinu ekki mikið meira en það sem á góðri íslensku kallast business as usual. Athugasemdakerfið er fært til 21. aldarinnar með þeim hætti að tilvera á Facebook verður nú forsenda fyrir því að leggja lóð sitt á vogarskál umræðunnar. Þetta hefur sína kosti og galla. Ég brást ókvæða við þegar Egill Helgason tók sams konar aðgangsstýringu upp á sinni góðu umræðusíðu enda þverneitaði ég að láta sjá mig á Facebook fyrr en 9. júlí 2012 og þá fyrir grátstaf annarra. Egill benti mér hins vegar, og í raun réttilega, á að þetta væri krafa tímans (ekki blaðsins) og samkvæmt gömlum en þó ekki afnumdum lögum mætti í raun lögsækja hann sjálfan fyrir eitthvað sem einhver nafnlaus léti frá sér fara í athugasemdum hjá honum. Í raun hef ég sjálfur fulla ástæðu til að taka mark á þeim varnaðarorðum þar sem algengustu athugasemdirnar á síðunni hjá mér fram að þessu hafa verið auglýsingar um falsaða merkjavöru, úr, skó og skartgripi, frá óforskömmuðum útlendingum (ómetanlegt hugtak, er þá til fólk sem er forskammað?).

Ég óska því sjálfum mér innilega til hamingju með nýja útlitið (á síðunni) og árin fimm og er það fróm ósk mín að lesendur geti fundið það í hjarta sínu að una við niðurstöðu þess stutta en róttæka breytingaferlis sem hér hefur farið fram nánast í kyrrþey og alfarið eftir spaklegu viti Ríkharðs tæknistjóra.

Athugasemdir

athugasemdir