Leigðu þér pólska ömmu

Pólskt elliheimili í bænum Silesia kemur nú til móts við þá, sem af einhverjum ástæðum áttu ekki kost á ömmuuppeldinu, og leigir þeim einfaldlega ömmu gegn vægu gjaldi. Leiguömmurnar eru að sjálfsögðu vistmenn á heimilinu og telja sig ekki hafa neitt betra að gera en að sinna hinu hefðbundna ömmuhlutverki áfram þrátt fyrir að vera búnar að skila sínu til eigin fjölskyldu.

Reuters-fréttastofan greinir frá einu dæmi þar sem foreldrar 10 ára stúlku leigja eitt stykki ömmu til að eyða deginum með dótturinni en þau vinna bæði utan heimilisins og eiga erfitt með að hugsa sér að enginn sinni afkvæminu á meðan.

Þetta hefur gefist stórvel, amman hjálpar þeirri stuttu með heimanámið og styður hana með ráðum og dáð. Tengslin eru orðin svo náin að leiguamman er eiginlega orðin hluti af fjölskyldunni og fer til dæmis með henni í frí. Ömmunum er svo hægt að skila aftur á elliheimilið þegar þær hafa lokið hlutverki sínu í útleigunni.

Athugasemdir

athugasemdir