Ég gekk í skóla Ísaks Jónssonar árin 1978 – 1980 og hafði af því gagn og allnokkurt gaman. Sú minning hefur nú verið svert af stjórnendum skólans sem brugðust algjörlega í málinu sem hér segir af, þrátt fyrir að ég hafi í upphafi verið fullvissaður um að málið fengi farsælan endi og væri í góðum farvegi.
Ég starfa hjá 365 miðlum. Þann 7. október í fyrra var ég að aka úr vinnunni eins og svo oft áður enda mæti ég almennt einu sinni á dag til vinnu og fer að sama skapi þaðan jafnoft. Þessi dagur var þó frábrugðin að því leyti að nemendur við Ísaksskóla stóðu við girðingu sem afmarkar lóð skólans og köstuðu grjóti að bílum sem keyrðu hjá. Ég heyrði töluverðan hávaða þegar grjóthnullungur lenti á hægra frambretti bílsins míns og snarhemlaði.
Fögur fyrirheit
Ég sá strax hvar krakkaormur hljóp frá girðingunni en var stöðvaður af starfsmanni skólans sem greinilega veitti barninu snuprur. Ég ók inn á stæði skólans, fór inn og bað um að mér yrði vísað á skrifstofu skólans. Svo var gert og hitti ég þar fyrir skólastjórann, Eddu Huld Sigurðardóttur. Edda tók mér vel og kallaði til sín starfsmanninn sem var á vakt á lóðinni. Starfsmaðurinn sagðist vita til þess að ákveðinn nemandi í fimm ára bekk hefði kastað í bílinn og teldi hún sig vita hver það væri. Edda skólastjóri bað mig að ræða við mitt tryggingafélag, hún myndi ræða við foreldrana og málið yrði svo tekið föstum tökum. Ég er greinilega of auðtrúa þar sem ég keypti þetta um leið og gekk út mun sáttari, haldinn þeirri þægilegu vissu að Ísaksskóli væri enn sama fyrirmyndarstofnunin og ég nam við fyrir 30 árum.
Nú nú, ég fór svo til VÍS, sem ég skipti við, gaf skýrslu um atburðinn og fór á eitt af verkstæðum þeirra til að láta meta tjónið. Matsmenn köstuðu því fram að þetta væri sennilega nálægt 80.000 krónum. Ég sætti mig við það enda taldi ég að heimilistrygging foreldranna myndi bæta tjónið fljótt og vel. Kaskó-trygging bílsins er með sjálfsábyrgðina 124.000 krónur svo það myndi ekki nýtast mér enda myndi kaskó-iðgjaldið hækka um leið og reyndi á trygginguna sem ég vil ógjarnan sætta mig við.
Syrtir í álinn
Svo fór að síga á ógæfuhliðina. Foreldrar barnsins settu sig í samband við VÍS. Þau heita Bryndís og Guðjón og ég birti þau nöfn með ánægju hér. Svo fengu þau greinilega einhverja bakþanka og ákváðu að neita sök, þeirra barn hefði alls ekki átt hlut að máli. Edda skólastjóri ákvað að vera stálheiðarleg og þegja málið í hel, svaraði ekki ítrekuðum tölvupóstum frá mér um framgang málsins en lét VÍS vita af því að ekki væri vitað hver sökudólgurinn væri. Annað en mér var sagt rétt eftir tjónið. VÍS getur ekkert gert þar sem enginn tjónvaldur er finnanlegur og kaskó-trygging nær ekki yfir þetta. Hver borgar þá brúsann? Ég.
Heimilistrygging foreldranna hefði bætt þetta tjón vandræðalítið hefðu þau haft manndóm í sér til að viðurkenna að litli engillinn þeirra væri sekur. Það höfðu þau ekki. Þess vegna sit ég uppi með tjónið af því að stjórnendur Ísaksskóla hafa ekki betri stjórn á nemendunum en svo, að þeir fá að standa við girðinguna og henda grjóti í bíla á götunni.
Til hamingju, Edda Huld, með frábær málalok og vonandi sefurðu vel. Þeir sem hafa nennu í sér að lesa þessa grein mega gjarnan senda hlekkinn á hana til allra sem þeir vilja.