Læknavaktin er ekki með númerið 552-1230

smiÞað var árið 1998, skilst mér á þeim upplýsingum sem ég aflaði mér hjá Símanum, sem Læknavaktin ákvað að leggja sínu gamalgróna símanúmeri, 552-1230. Hvort það var á þeim tímapunkti eða síðar sem þeir tóku upp númerið 1770 veit ég hins vegar ekki. Það var svo um mitt sumar 2003 sem ég, óafvitandi um þær hörmungar sem biðu mín, valdi mér númerið 552-1230 sem heimasíma. Númerið var valið í stíl við ættarbílnúmer fjölskyldunnar, R-1230 sem gengið hefur mann fram af manni allar götur síðan 1930 og hefur síðan árið 2000 prýtt mín ökutæki.

Mér fannst það svo ákaflega dæmigert þegar nýi heimasíminn minn glumdi í fyrsta sinn að þar skyldi vera um skakkt númer að ræða. Eldri frú taldi sig vera að hringja í Læknavaktina og ég eyddi dágóðum tíma í að koma henni í skilning um að þetta væri nú bara heima hjá mér en ekki hjá Læknavaktinni. Ég gaf henni svo upp númerið 1777 eftir minni og áttaði mig síðar á að vesalings konan hefur hringt beint í upplýsingasíma Vegagerðarinnar. Guð einn veit hve lengi þeir hafa verið að beina henni á rétta braut.

Auðvitað leit ég á þetta sem einangrað atvik en svo fóru að renna á mig tvær grímur þegar síminn hringdi næst, þarnæst og næstu 20 skipti og alltaf upphófst skelfileg sjúkrasaga þegar ég lyfti símtólinu. Sumir voru beinlínis dauðir. Það var þá sem ég hafði samband við þjónustuver Símans og fór að grafast fyrir um fortíð símanúmersins 552-1230.

‘Jú jú, það ber ekki á öðru,’ sagði vingjarnleg og skilningsrík kona í þjónustuverinu, ‘þú ert með gamla Læknavaktarnúmerið.’ Á sekúndubrotum voru örlög mín ráðin. Eftir nokkra umhugsun ákvað ég þó að halda númerinu og láta mig hafa þá ásókn sem fylgdi. Það sem ef til vill kemur mest á óvart, nú á hinni rafvæddu öld ofurupplýsinga, er hve stór hluti þjóðarinnar lumar á símanúmerum í gömlum lúnum minnisbókum og byrjar leit sína þar frekar en á ja.is eða í 118.

Oft hefur laumast í mig púki og ég hef staðið vaktina og leiðbeint grafarlvarlegur um botnlangaskurði, hjartahnoð, flísar (og bjálka) í auga og allt hvað eina. Það var núna síðast í kvöld sem ráðvilltur útlendingur hringdi og dauðlangaði að vita um opið apótek á höfuðborgarsvæðinu. Þeir sem þetta lesa ynnu góðverk með því að gauka þeim upplýsingum að ömmum, gömlum frænkum og öðrum líklegum notendum ævafornra símaminnisbóka að síðastliðin 11 ár hefur Læknavaktin ekki svarað í síma 552-1230 og síðastliðin sex ár hef ég svarað í það. Þá sjaldan sem ég nenni að svara í heimasímann, allir sem þekkja mig hringja í farsímann.

Athugasemdir

athugasemdir