Kynni mín af the hedgehog

jeremySennilega er fátt ómetanlegra en gamlar myndir. Það sannaðist enn einu sinni þegar ég dró þetta ómetanlega listaverk upp úr kassa og skellti því beint í inntakstækið (skannan ef einhver kannast betur við það). Það er enginn annar en stórleikarinn og lífskúnstnerinn Ron Jeremy Hyatt, einnig þekktur sem broddgölturinn eða the hedgehog, sem fékk að láta mynda sig með mér í Háskólabíói í október 2002. Kappinn var þá í Íslandsheimsókn við kynningu á ágætri heimildarmynd um sjálfan sig, Porn Star: The Legend of Ron Jeremy, sem var bara frekar upplýsandi minnir mig.

The hedgehog hélt alla vega ágætan fyrirlestur í bíóinu eftir sýningu myndarinnar en bað svo um að fá að láta mynda sig við hliðina á mér sem var býsna flókið þar sem hann er um einn metri á alla kanta, þar á meðal á hæð. Ég er sem sagt nánast á hnjánum þegar myndin er tekin en næ þó að láta þetta líta nokkuð eðlilega út.

Ron Jeremy er reyndar mesti háðfugl og ég hef haft mikið gaman af mörgum verka hans, til að mynda hinum ógleymanlegu Buttman 121 og Poultrygeist. Þá hefur hann ritað endurminningar sínar, Ron Jeremy: The Hardest (Working) Man in Showbiz, og hefur BA-gráðu í kennslufræði og MA í sérkennslufræðum. Toppmaður.

Einhvern tímann í árdaga veraldarvefjarins, sennilega sumarið 1996, sat ég um miðja nótt sem öryggisvörður í utanríkisráðuneytinu við Rauðarárstíg og fletti þeim fáu netsíðum sem þá voru í boði. Um miðbik þessarar björtu sumarnætur rak á fjörur mínar nokkuð hnyttin síða. Þar hafði einhver brjálaður Kani með allt of mikinn frítíma tekið saman tíu frasa úr Stjörnustríðsmyndum George Lucas sem hefðu fengið allt aðra merkingu hefði Ron Jeremy verið í myndunum. Langt er um liðið en ég man vel setninguna í toppsætinu sem var úr fyrstu Stjörnustríðsmyndinni, þegar gerð var atlaga að Helstirninu ógurlega: ‘Let’s blow this thing so we can all go home.’

Athugasemdir

athugasemdir