Í dag, laugardaginn 13. júní, létum við vaða og skelltum niður þremur tegundum af kartöfluútsæði ásamt gulrótar- og radísufræjum. Framkvæmdin var furðueinföld þannig séð. Við mættum á svæðið í hæglætisveðri og þurru en ekki leið á löngu uns sá gamli tók að hella úr sér. Útsæðistegundirnar voru premier, gullauga og rauðar, allt hroðalegt efni sem gjörbylt hefur mörgum kartöflugarðinum. (MYND: It may not look much en þetta er hann, the garden of good and evil.)
Svo vel vildi til að við vorum fjögur við framkvæmdina þar sem tengdaforeldrar atlisteinn.is mættu á staðinn, sinntu ráðgjöf og veittu aðstoð. Auk þess bjuggu þau yfir mögnuðu verkfæri, svokölluðum niðursetningi, sem er notað til að stinga göt í jarðveginn fyrir útsæði sem troðið er niður.
Þar sem atlisteinn.is hefur sett sér það markmið að styðjast eingöngu við lífræna ræktun verður ekki um neinn tilbúinn áburð að ræða. Eingöngu verður stuðst við þurrkaðan hænsnaskít og/eða saur hrossa jafnvel að við hjónin mætum sjálf upp eftir þegar okkur verður brátt í gömlu brókinni (þetta síðasta skal þó eingöngu skoða sem neyðarúrræði fari Garðheimar á höfuðið vegna stórhækkaðs heimsmarkaðsverðs á útsæði).
Það skipti sem sagt engum togum að við tróðum spírandi útsæðinu í jörð niður og tókum því næst til við að sá fræjum gulróta og radís(n)a. Það var öllu einfaldara þar sem þá er einvörðungu grafinn grunnur skurður, fræjum dreift í hann og moldinni mjúku svo veitt yfir. Þar sem góð hitabeltisskúr heiðraði verkamennina með nærveru sinni þurfti ekki að vökva annan jarðveg en þann sem mannslifrin vinnur úr og var af þeim sökum næst haldið beint í áfengisútsölu okkar Mosfellinga og moldugum sporum þar dreift um gólf öll uns blessaður varningurinn var borinn út og vor sænska bifreið fyllt af áfengi, flatkökum og moldugum fötum.
Það er eitthvað heilbrigt og náttúrulegt við það að vakna beint úr drykkju og fara og fylla matjurtargarð af útsæði og fræjum, storma svo í næsta ríki, kaupa tonn af brennivíni og hefja þegar drykkju á ný. Þetta er eitthvað sem hægt er að tengja við frjósemisdýrkun, umhverfisvernd eða….áfengissýki.
En að segja að einhver sé alveg eins og mamma SÍN, Jón Óttar. Það tengi ég nú helst bara við…hreina klikkun.