Konan á 1. hæðinni hjá okkur er flutt eftir að hafa leigt hér í húsinu í sjö ár. Hún hefur búið í öllum þremur íbúðunum en endaði á 1. hæðinni. Leiðin lá sem sagt beint niður. Þetta er ágæt manneskja að norðan á miðjum aldri, tók aldrei bílpróf og nennir nú ekki að skrölta lengur í vinnuna í strætó. Hún tók sig því til og leigði sér íbúð skammt frá vinnustaðnum sem er á Forus og þar með er staðan sú að núna búa eingöngu Íslendingar á Gangeren 66. (MYND: Einmanaleg fjöl þar sem áður hékk póstkassi 1. hæðar. Hér í Noregi á fólk sinn póstkassa prívat og persónulega og flytur hann með sér milli híbýla. Við höfum nú ekki gert það hingað til og þessi græni, sem við notum, fékk að fylgja íbúðinni sem við leigjum.)
Húseigandinn er öskureiður þar sem nágrannakona okkar sagði upp með aðeins þriggja vikna fyrirvara og flutti svo út á laugardaginn. Hún afhenti okkur lyklana að íbúðinni sem nú stendur tóm og einhvers konar undarlegt millibilsástand ríkir á meðan þau ræðast eingöngu við gegnum lögfræðinginn hans. Hún býður honum að taka trygginguna (n. depositum) sem hún lagði fram á sínum tíma og er upphæð sem svarar til tveggja mánaða leigu og í raun ætti hann að gera sig ánægðan með það en er í staðinn eins og snúið roð upp í hund.
Ofan á þetta allt saman höfum við, þetta lausnamiðaða fólk sem við erum, boðið honum upp á toppmann sem næsta leigjanda, sjálfan Ásgeir og fjölskyldu, en Ásgeir hefur búið í gestaherberginu hjá okkur síðan 7. júní og leitar nú ákaft að íbúð áður en kona hans og tvö börn koma út í október. Ástandið er því lævi blandið, ekkert Kóreuskagadæmi kannski en nettur kaldastríðsandi svífur þó yfir vötnum. Hefði verið stórfínt að fylla allt húsið af Íslendingum sem eru ábyrgasta fólk í heimi og hæfilega drykkfellt (húseigandinn sjálfur er svo blautur að við þurftum nánast að grípa í hann til að varna því að hann félli með brauki og bramli á eldhúsgólfið þegar hann var að sýna okkur íbúðina í fyrra).
Stjórnarmyndunarviðræður kosningasigurvegaranna á hægri kantinum eru nú hafnar af miklum móð í skugga mikils ofstækis evrópskra fjölmiðla í garð Framfaraflokksins (Frp.) sem þeir vilja margir tengja við Anders Behring Breivik og öfgastefnu í garð útlendinga. Hvað sem því líður er nánast útilokað að flokkurinn verði ekki einn þriggja eða fjögurra flokka í nýrri stjórn Ernu Solberg. Hvað sem verður búast Norðmenn við örlítið hressari stjórn en rauðgrænunni hans Stoltenberg.
Verslunareigendur ætla sér greinilega að vera klárir þegar eitt af helstu stefnumálum Hægriflokksins, léttvín í almennum verslunum, verður að veruleika og blasti her iðnaðarmanna við mér í Coop hérna við hliðina á okkur í verslunarleiðangri dagsins. Höfðu þeir umturnað öllu áfengishorni verslunarinnar og troðið bjór og cider, sem áður fylltu eina tíu metra af fjögurra hæða hillum, í nokkrar penar og stuttar hillur en mikið tómt gímald blasir nú við í næsta nágrenni, reiðubúið að svigna undan hvítvíni, rauðvíni og rósavíni. OK kannski var bara verið að færa grænmetisborðið en hugur minn túlkaði þessi hamskipti strax í ljósi nýju ríkisstjórnarinnar. In vino veritas, eins og segir.