Þetta er einstakt afrek. Krónan hefur hér með orðið sér úti um titilinn klósett ársins 2009 á atlisteinn.is vegna síendurtekinna rangra hillumerkinga (sem, merkilegt nokk, gefa ávallt upp lægra verð en rukkað er við kassa, aldrei hærra þrátt fyrir að hér sé um hrein mistök að ræða að sögn verslunarstjóra). Hér að neðan getur að líta bréf sem ég sendi Neytendastofu í kvöld. Nú skora ég á alla sem þetta lesa og orðið hafa fyrir barðinu á hreinum þjófnaði Krónuverslana að senda Neytendastofu tölvupóst á netfangið postur@neytendastofa.is með yfirskriftinni ‘Krónan fellur’ og lýsa yfir stuðningi við málflutning atlisteinn.is auk þess að gera skýra og réttmæta kröfu um að Neytendastofa rannsaki þessa háttsemi Krónuverslana ítarlega og af festu.
Bréf mitt til Neytendastofu:
Nú get ég ekki lengur orða bundist yfir viðskiptaháttum verslana Krónunnar. Í kvöld varð ég fyrir því í áttunda sinn á þessu ári í Krónunni í Mosfellsbæ að verð á kassa var hærra en hillumerking vöru sagði til um. Í þessu tilfelli voru það tveir lítrar af Kristal með sítrónubragði sem merktir voru á 149 krónur í hillu en reyndust svo kosta 160 krónur við kassann. Verslunarstjóri endurgreiddi mér ellefu krónurnar þegar ég kvartaði og baðst innilega afsökunar.
Ég hef áður leitað skýringa hjá verslunarstjórum á þessum sérstaka mun og ávallt fengið sömu skýringar: Mistök við verðmerkingu. Mér finnst það ansi merkileg mistök sem ganga einatt í þá átt að neytandinn greiðir að lokum meira fyrir vöruna. Hvernig stendur á því að verðið er aldrei ‘óvart’ lægra á kassa en hillumerking segir til um?
Að mínu viti er þetta bága viðskiptasiðferði orðið svo áberandi hjá Krónunni að ég tel að kalli á rannsókn Neytendastofu. Það dylst engum sem er eldri en níu ára að forsvarsmenn Krónunnar treysta einfaldlega á að viðskiptavinurinn muni ekki hvað stóð á hillunni þegar komið er að kassanum og í flestum tilfellum er það einfaldlega þannig. Fróðlegt væri að vita hvað Krónan græðir á ársgrundvelli á þessum þjófnaði sínum, því þetta er ekkert annað.
Ég er í hópi þeirra neytenda sem skýst stundum inn og vantar þá eitthvað eitt eða tvennt. Þar af leiðandi man ég iðulega verðið þegar kemur að kassanum. Ég versla iðulega við Bónus en fer í Krónuna, sem er opin lengur, þegar þannig stendur á. Ferðir mínar í Krónuna eru því tiltölulega fáar, um þrjár í mánuði. Það hlýtur því að segja töluvert að ég hafi það sem af er árinu lent átta sinnum í því að kassaverð er hærra en hilluverð.
Atli Steinn Guðmundsson
neytandi