Nýliðin helgi var býsna fróðleg en hana notaði ég til að sækja námskeið og afla mér formlegra réttinda til að stjórna allt að 15 metra löngu sjófari án tillits til vélarafls og stærðar að öðru leyti. Rétt, líklega hefði ég seint tekið upp á þessu brölti algjörlega af eigin hvötum en vinnuveitandinn splæsti og við vorum 16 stykki sem bitum á agnið. (MYND: Kennslan fór fram úti í Engøy við opið gin Norðursjávarins.)
Fyrir vikið var þetta svo sem ekki mikil helgi, átta tímar af kennslu hvorn dag og próf undir lok dags í gær þar sem hópurinn var orðinn gegnsteiktur af kortalestri, sjómílum, siglingamerkjum og hvað það heitir þegar einhver vitaskratti blikkar svona eða hinsegin. Þó verð ég að játa að það var heillandi að fá væga innsýn í þennan heim sem er alltumlykjandi hér í Rogaland þar sem íbúarnir brenna árlega upp samtals 85 milljónum lítra af eldsneyti með tómstundabátum einum saman og eru þá allar siglingar í atvinnuskyni ótaldar.
Sem betur fer var kennarinn, hann Egil, hvort um sig mikill fróðleiksbrunnur og ágætur fyrirlesari sem teljast frumskilyrði námskeiða. Hann rekur uppruna sinn upp á Rennesøy og notar orðið skodda fyrir þoku en það telja Vestlendingar lýsa fyrirbærinu mun betur en hið hefðbundna tåke. Ekki vantaði sagnfræðina í kennsluna og greinilegt að nemendur sem ekki voru bornir og barnfæddir Rogalendingar urðu að hafa sig alla við að ná rúsínunni í pylsuendum sumra frásagnanna þar sem yfirgripsmikillar þekkingar á staðháttum var krafist. Til dæmis hafði náungi nokkur við eitthvert nafngreint sker lent í því að nota akkeri báts síns eins vitlaust og hægt var með þeim afleiðingum að hann skaust marga metra upp í loftið og hafnaði í sjónum. Sá fékk mikið lófaklapp af því að þetta var fyrir 1997. Skýringin var sú að ferja sem áður sigldi inn Riskafjord hætti að ganga það ár en fram að því stóð alla jafna hópur fólks og beið eftir henni á tilteknum stað og varð einmitt vitni að þessu atviki á sínum tíma.
Góð var einnig saga áttavitans en fyrstu vökvaáttavitar á Norðurlöndum voru fylltir með spritti. Þessu fyrirkomulagi þurfti fljótlega að breyta, að minnsta kosti um borð í fiskibátum hér í fylkinu, þar sem þetta krafðist mikils viðhalds en það var einkum til komið af því að jafnskjótt og áhöfnin sá til lands á leiðinni inn var áttavitinn brotinn upp og þambað úr honum áður en sjóararnir lögðu rallhálfir að bryggju. Alltaf missir maður af öllu svona.
Eins og fyrr segir lauk herlegheitunum með prófi sem mér leist í fyrstu ekkert á. Útreikningar á siglingastefnu að teknu tilliti til misvísunar, tímaútreikningar á leiðum og staðsetningar á korti með N 59°34’27.30″, E 02°13’22.60″-fyrirkomulagi (sú þumalputtaregla fylgdi fyrir mögulegar gildruspurningar að Rogaland í heild sinni rúmast innan N 58 og 59 og var það huggun). Mér leist lítið á blikuna en Egil stappaði fræðunum í okkur og þvældi okkur í siglingakortunum þar til þau voru orðin okkur álíka töm og greiðslukort.
Málum lyktaði þannig að ég glansaði á prófinu með 98% rétt og einu villuna í einhverri aldurstakmarksspurningu í laga- og regluhlutanum. Korta- og siglingafræðihlutinn var upp á tíu sem er alveg ótrúlegt þegar ég á í hlut sem óttast allt með tölum nema bankareikninginn minn.
Þetta var gaman alla vega og helginni vel varið. Hver veit nema maður skelli sér á kænu og mæti svo ferskur í 24 metra réttindin fyrir fimmtugt (það er reyndar 110 tíma námskeið og rúmast tæplega á einni helgi en…).