Ég leit á kellinguna í vinnuna á mánudaginn eftir vinnu hjá mér. Það er ekki himinn og haf á milli okkar, við erum bæði starfandi í Tananger í Sola, þar sem flest stóru olíufyrirtækin hafa aðsetur. Reyndar get ég sagt að haf sé á milli okkar þar sem vinnustaðir okkar eru hvor sínu megin við víkina Risavika sem gengur inn úr Norðursjónum og er nánast fullkomið hafnasvæði frá náttúrunnar hendi. Innan eða austan við Risavika breiðir Hafursfjörðurinn svo úr sér með sinni sérstæðu lögun.
Rósa starfar alla vega hjá flutningafyrirtækinu Logi Trans en stór hluti af starfsemi þess snýst um flutninga á útbúnaði tengdum olíuiðnaðinum og að koma gegndarlausu magni af tækjum og tólum til og frá borpöllunum í Norðursjónum. Í raun það sama og ég er að bardúsa sjálfur hjá ConocoPhillips. Skiljanlega er nóg að gera í slíkum flutningum þar sem 122 milljónir tonna af útbúnaði eru sendar frá landi út á norska olíuborpalla ár hvert og svo kemur þetta nánast allt í land aftur, nema matur og drykkjarvatn.
Sú gamla er orðin býsna slyng á lyftaranum og hlóð vörubrettum á flutningabíl af fagmennsku og öryggi þegar mig bar að garði. Ekki við öðru að búast þar sem við vorum náttúrulega bæði útskrifuð með láði af lyftaranámskeiðinu hjá SKT í fyrrasumar sem sagt var af hér.
Ég hlammaði mér bara inn á lager og fékk mér neskaffi í góðu yfirlæti á meðan ég beið eftir að hún kláraði, þó ekki fyrr en ég hafði smellt af nokkrum myndum á hinn forláta iPhone-síma sem fylgdi með starfinu hennar.
Ég mun seint venjast iPhone held ég. Veldur þar annars vegar að mér finnst ægilegt að hafa ekki fýsíska takka á gripnum til að ýta á heldur eingöngu skjá en hins vegar óþægindin við að þurfa sífellt að snerta skjáinn en ævilöng reynsla mín segir að bein snerting við slétta gljáandi fleti skilji eftir fingraför á þeim. iPhone virðist þó mikið til laus við þann annmarka. Ættu ekki gluggar, glerborð og annað slíkt þá að vera úr sama efni?
Óþægindi við yfirvofandi flutninga ná hámarki næstu daga. Óþolandi að þurfa að púsla saman ótal tímasetningum sem verða að smella eins og flís við rass. Núverandi leigjandi flytur út og við flytjum inn. Hér flytur eigandi íbúðarinnar inn. Þetta táknar lestur af rafmagnsmælum á flutningadegi, flutning á allri þjónustu sem Lyse veitir okkur, síma, sjónvarpi, nettengingu, rafmagni og öryggiskerfi, auk flutnings heimilisfangs og pöntunar á sjálfvirkri framsendingu pósts sem hingað berst og milljón annarra hluta.
Svo þarf að þrífa hér hátt og lágt en fyrst þurfum við helst að ná að moka sem mestu af búslóðinni yfir í nýju íbúðina og bílskúr og geymslu þar. Núverandi leigjandi ætlar að reyna að vera búinn að tæma allt í næstu viku en þá á sennilega eftir að mála íbúðina áður en við flytjum inn og hvar eigum við þá að hafa eitt tonn af drasli á meðan?
Við þessari og fleiri spurningum fást einhver misþægileg svör á næstu dögum. Ég stend við það sem ég skrifaði hér í mars: Ég nenni þessu ekki!