Kandídatar á nýja 10.000 kallinn

hundrad trilljonirÞessi frétt Vísis um væntanlegan 10.000 króna seðil er náttúrulega eitthvað sem hlaut að kvisast út fyrr en síðar. Það segir eiginlega allt sem segja þarf um stöðu íslensku krónunnar að það kosti þrjár krónur að búa til eina krónu – slá myntina það er að segja. Þetta er bráðsmellið auðvitað. En varðandi væntanlegan tíuþúsundkall hlýtur fyrsta spurningin auðvitað að vera hver prýða muni kvikindið. Norðmenn settu listmálarann Edvard Munch á sinn stærsta seðil sem er þúsund krónur (eða 21.260 íslenskar krónur á gengi dagsins í dag). Íslendingar eru hins vegar búnir að spreða Kjarval á tvöþúsundkallinn sem aldrei náði neinum vinsældum og fæst nú nánast eingöngu úr hraðbönkum. (MYND: Sennilega nær nú íslenska krónan samt aldrei zimbabwedollaranum góðkunna sama hvað hún veikist. Hérna er hundrað trilljón dollara seðill Zimbabwe-manna. Af hverju er Mugabe ekki á honum???)

Þá er úr vöndu að ráða. Ætti seðillinn ekki að endurspegla að einhverju leyti það efnahagsumhverfi sem gat hann af sér, það er að segja óðaverðbólgu og hrunárin? Það er býsna freistandi að ætla sjálfum Davíð Oddssyni framhlið seðilsins. Bakhliðina gætu svo ýmsir minni hrunamenn prýtt og kemur Geir H. Haarde fyrstur upp í hugann. Hann var nú fjármálaráðherra við upphaf íslenska gullæðisins.

Annar sterkur kandídat á nýja seðilinn væri Jóhannes í Bónus sem sett hefur svip sinn á íslenskt viðskiptaumhverfi síðustu tvo áratugi og síðast en alls ekki síst dettur mér í hug eitthvað tengt stærstu viðskiptabönkunum. Þannig mætti ímynda sér Björgólf Guðmundsson á framhliðinni með eitt af sínum frægu bindum og annað tveggja aftan á, Hörpuna eða Björgólf Thor. Hugmyndirnar eru mýmargar og spennandi að sjá hvað verður ofan á. Fullkominn óþarfi að mínu viti að hafa eintómar miðaldahetjur og biskupa á íslensku seðlunum.

Húsið okkar í Mosfellsbæ seldist á nauðungarsölu í morgun og fór á 36 milljónir sem er reyndar mun hærra verð en ég átti von á miðað við nauðungarsölur á Íslandi. Við þetta greiðist alveg þriðjungur af mínum ágætu hrunskuldum upp, með öðrum orðum sér varla högg á vatni. Eftir situr þá íbúðin mín með hinu fræga myntkörfuláni Frjálsa fjárfestingarbankans sem hækkaði um 66.000 krónur á sólarhring í 14 mánuði samfleytt. Hún fer næst undir hamarinn og verð ég þá formlega eignalaus fyrir utan húsgögn og nokkrar bækur sem allt er hér í Noregi. Mig grunar að ég haldi mig bara við þá stöðu framvegis enda kom ég eignalaus í þennan heim og víst er að ekkert tek ég með mér yfir á næsta tilverustig hvert sem það svo sem verður.

Athugasemdir

athugasemdir